Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna nú í morgun að hægt verði að aflétta öllum sóttvarnatakmörkunum hér á landi um miðjan mars, en hann bindur þó vonir við að hægt sé að gera það fyrr.
Álagið á Landspítala hefur minnkað til muna og var neyðarstigi spítalans aflétt í gær.
„Ég tel að góðar vonir séu til þess að við munum ná í mark í þessari baráttu, í þessu langhlaupi um síðari hluta mars og jafnvel fyrr ef ekkert óvænt kemur upp á,“ sagði Þórólfur á fundinum og skoraði á fólk að standa saman þessa síðustu metra í þessu maraþonhlaupi.