Neyðarkall barst frá neyðarsendi á Vatnajökli á fjórða tímanum í nótt. Björgunarsveitir frá höfuðborgarsvæðinu og allt til austfjarða hafa verið boðaðar til og eru um fimmtíu björgunarsveitarmenn frá níu björgunarsveitum á leið upp á Vatnajökul. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.
„Enn er unnið að því að komast á staðinn þaðan sem neyðarsendinginn kom en vonir standa til að það takist á næstu klukkutímum. Fjöldinn allur af sérhæfðum tækjum og sjálfboðaliðum sækir því á jökulinn úr öllum áttum á vélsleðum, breyttum jeppum og snjóbílum. Svæðisstjórnir á svæði 1-13-15 skipuleggja aðgerðir björgunarsveita,” segir í tilkynningunni.
Mikil veðurhæð er á svæðinu og takmarkað skyggni, sem gerir aðstæður erfiðar.