Auglýsing

Börn nýta náttúru til listsköpunar á Degi íslenskrar náttúru

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynntu sér skapandi starf grunnskólabarna á Degi íslenskrar náttúru.

Ungt fólk lætur umhverfismál sig varða í sívaxandi mæli og í dag nutu grunnskólabörn víða um land útiveru og nýttu sér náttúruna til listsköpunar.

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert og hafa skólar haldið daginn hátíðlegan með þátttöku í verkefninu „Náttúran í nærumhverfinu“. Verkefnið felur í sér að nemendur eru hvattir til að nota náttúruna sem innblástur til listrænnar sköpunar og er það útfært sérstaklega fyrir hvert aldursstig. Verkefnin er hægt að vinna jafnt á skólalóð, sem og í næsta umhverfi og taka þau mið af ólíkri getu og úthaldi nemenda.

Að verkefninu standa mennta- og menningarmálaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samstarfi við Landvernd og Reykjavíkurborg.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, heimsótti nemendur 1., 3. og 4. bekkjar í Hvolsskóla á Hvolsvelli í morgun og fylgdist með börnunum móta úr merki skólans og einkennisorðin: Gleði, virðing, vinátta, úr laufum og greinum og ýmsu sem hægt var að finna á skólalóðinni.

„Það var virkilega gaman að hitta krakkana í Hvolsskóla og taka þátt í listsköpun úr efniviði íslenskrar náttúru. Mikilvægi menntunar til sjálfbærni verður seint ofmetið og jákvæð áhrif þess út í samfélagið til lengri og skemmri tíma. Við þurfum að standa vörð um þessi gildi hér eftir sem hingað til,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, heimsótti nemendur í Kársnesskóla. Ráðherra og krakkar í 7. bekk skólans gengu síðan saman niður í fjöru þar sem hófst heljarinnar leit að furðuverum og sjóskrímslum.

„Unga fólkið okkar lætur sér annt um náttúruna og grunnskólanemendur eru bæði fróðleiksfúsir og skapandi. Það er okkur öllum hollt að gefa umhverfinu betri gaum, líka nærumhverfinu sem oft reynist meira spennandi er margir halda. Þetta var hressandi fjöruferð, og ég þakka nemendum Kárnesskóla sérstaklega vel fyrir hlýjar móttökur,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Umhverfismennt og fræðsla um náttúruna tengist skólastarfi með fjölbreyttum hætti og hafa fjölmörg spennandi þróunar- og nýsköpunarverkefni á því sviði verið útfærð í grunnskólum landsins síðustu ár. Rúmlega 230 íslenskir skólar á öllum skólastigum taka þátt í alþjóðlega umhverfismenntaverkefninu Skólar á grænni grein (e. Eco-Schools) eða Grænfánaverkefninu, sem styrkt er af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Landvernd hefur umsjón með verkefninu hér á landi en það miðar m.a. að því að efla sjálfbærnimenntun, umhverfisvitund og samfélagskennd, og veita nemendum menntun og færni til þess að fást við umhverfismál sem styðja við umhverfisstefnur sinna skóla.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing