Britney Spears fagnar tveimur stórum tímamótum í dag. Hún er 43 ára og formlega orðin einhleyp.
Samkvæmt nýjum lögskilnaðargögnum, sem TMZ hefur undir höndum, lauk skilnaði hennar og Sam Asghari á mánudag. Sam sótti um skilnað í ágúst 2023 eftir 14 mánaða stormasamt hjónaband.
TMZ greindi frá því að sambandið hafi verið átakanlegt á köflum. Britney var stundum mjög reið út í Sam og í einu tilfelli veitti hún honum glóðurauga á meðan hann svaf.
Parið hafði gert kaupmála sem tryggði að Sam fékk næstum ekkert eftir skilnaðinn. Britney greiddi þó húsaleigu fyrir hann í nokkra mánuði eftir að hann flutti út, en það var nánast allt. Sam fór með fötin sín, tók vörubílinn og keyrði burt út úr lífi poppstjörnunnar.
Bæði Britney og Sam hafa haldið áfram með líf sitt eftir skilnaðinn. Britney hefur átt í óstöðugu (on og off) sambandi við landslagsarkitektinn Paul Soliz en einhverjir fjölmiðlar vestanhafs greina frá ásökunum þess efnis að samband þeirra Britney og Paul hafi skarast við fyrri sambönd.
Sam, á hinn bóginn, er nú í sambandi við Brooke Irvine.