Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er með minnisblað í vinnslu þar sem hann mun leggja til hertari aðgerðir gegn útbreiðslu Covid-19 faraldursins hér á landi. Hann býst við að senda Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra þessar hugmyndir síðar í dag. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur sagði á fundinum að samfélagssmit væru að færast í vöxt, sem væri áhyggjuefni.
„Með þetta í huga tel ég nokkuð einsýnt að það sé ekki hægt að slaka á aðgerðum innanlands,“ sagði Þórólfur.
Að hans sögn má búast við hertari aðgerðum í tvær til þrjár vikur. Þær aðgerðir sem eru í gildi núna renna út 3. nóvember en Þórólfur telur æskilegt að þær hertu aðgerðir sem hann mun leggja til taki gildi fyrr, helst fyrir helgi.