Auglýsing

DIMMA fagnar 20 ára afmæli með kraftmiklum stórtónleikum: Sinfónískur rokkviðburður sem þú vilt ekki missa af

DIMMA er ein af fremstu þungarokkshljómsveitum Íslands og hefur verið starfandi í yfir tvo áratugi. Hljómsveitin var stofnuð af bræðrunum Ingó og Silla Geirdal árið 2004 og hefur í gegnum árin gefið út fjölmargar plötur sem hafa haft mikil áhrif á íslensku þungarokkssenuna. DIMMA er þekkt fyrir hráan og kraftmikinn hljóm, en einnig fyrir dramatíska og myrka texta, sem endurspegla íslenskt umhverfi og þjóðarsál. Meðlimir DIMMU hafa náð að skapa sér einstakan sess á tónlistarsviðinu. Ekki aðeins á Íslandi heldur einnig erlendis, þar sem þeir hafa haldið tónleika og tekið þátt í alþjóðlegum tónlistarhátíðum.

DIMMA hefur unnið með stórum nöfnum eins og Bubba Morthens og SinfoniaNord, sem hefur styrkt stöðu þeirra í tónlistarheiminum. Hljómsveitin er þekkt fyrir kraftmikla sviðsframkomu og magnaðar útsetningar, sem gera DIMMU að einu af bestu tónleikaböndum Íslands.

Í tilefni 20 ára afmælis ætlar DIMMA að halda stórtónleika ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands bæði í Hofi á Akureyri þann 5. október og Eldborgarsal Hörpu þann 11. október. Tónleikarnir í Hofi eru þegar uppseldir, en miðar á tónleikana í Hörpu eru til sölu á tix.is. Á þessum tónleikum verður farið í gegnum vinsælustu lög hljómsveitarinnar ásamt útsetningum á verkum af öllum plötum DIMMU. Lög í rokksinfónískum útsetningum frá Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, Haraldi Vigni Sveinbjörnssyni, Julian Kershs og Þórði Magnússyni, sem mun einnig stýra hljómsveitinni. Þetta verður einstakur tónlistarviðburður sem sameinar kraftmikinn hljóm DIMMU og þunga sinfónískra útsetninga.

Tónleikarnir munu byggja á fyrra samstarfi DIMMU við SinfoniaNord, sem átti sér stað fyrir tæpum áratug og þótti frábært. Aðdáendur geta vænst stórkostlegs flutnings á helstu verkum DIMMU, þar á meðal lögum frá plötum eins og Stigmata, Myrkraverk og Þögn.

Í tilefni af þessum tónlistarviðburði ákvað Nútíminn að ræða við Ingó Geirdal um ferilinn, áhrif tónlistarinnar á alþjóðavettvangi og hvers má vænta á komandi tónleikum. Ingó var ákaflega ánægður með hvernig allt ferlið hefur gengið og lýsti því hvernig hljómsvitin nálgast tónleikana með SinfoniaNord sem tækifæri til að fagna langri og farsælli tónlistarvegferð.

DIMMA & SinfoniaNord: Sinfónískt rokk

DIMMA vann með SinfoniaNord árið 2015, þegar þeir héldu tónleika bæði í Hofi og Hörpu. Aðspurður um hvernig það sé að endurútsetja lög þeirra fyrir sinfóníuhljómsveit, sagði Ingó að þó þeir hafi áður leikið saman, þá séu þeir nú að flytja mörg lög í sinfónískum útsetningum í fyrsta sinn. Hann lýsti því hvernig það hafi komið á óvart hversu ótrúlegur hljóðheimurinn verður þegar þessir tveir heimar, rokk og sinfónía, sameinast. Ingó telur að aðdáendur muni ekki verða fyrir vonbrigðum með þessa sérstöku upplifun.

Langlífi DIMMU: Heiðarleiki og ástríða

Þegar ég spurði Ingó hvað hann taldi vera lykilinn að langlífi DIMMU, svaraði hann að það hafi alltaf verið mikilvægt fyrir þá að vera heiðarlegir í tónlistarsköpun sinni. Þeir hafa aldrei elt ríkjandi strauma eða stefnur, heldur einbeitt sér að því að gefa allt sitt í flutninginn. Þessi hollusta við eigin tónlistarsýn hefur, að hans mati, verið lykillinn að því að halda DIMMU við völd í tvo áratugi.

Samstarf bræðranna: Yin og Yang

Við fórum einnig yfir samstarf Ingós og bróður hans, Silla Geirdal, sem hefur verið viðvarandi í meira en þrjá áratugi. Ingó lýsti því hvernig þeir bræður, þrátt fyrir ólíka styrkleika, bæta hvorn annan upp eins og Yin og Yang. Þeir eru ekki alltaf sammála, en hafa frá upphafi haft skýra sýn á hvernig tónlist DIMMU á að vera. Sameiginlegt markmið sé að gera sitt allra besta til að ná því fram.

Myrkraverk og þróun tónlistar

Mér lék einnig forvitni á að vita um innblásturinn á bak við myrku textana og dramatíska tónlistarmótíf hljómsveitarinnar. Ingó lýsti því að sum þemu, eins og á plötunum Myrkraverkog Vélráð, hafi komið snemma og mótað lögin og textana. Hann skrifar oft út frá eigin upplifunum. Með plötum eins og Eldraunir og Þögn kom þemað nokkuð snemma þegar textarnir fóru að fæðast.

Sinfónísk samvinna þróar DIMMU

DIMMA hefur alltaf verið melódísk og dramatísk hljómsveit og notast við strengjasveitir og kóra á plötum sínum til að stækka hljóðheiminn þegar lögin kalla á það. Að sögn Ingós hefur samstarfið við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands haft mikil áhrif á hvernig DIMMA nálgast útsetningar á lögum sínum og hefur þetta verið stórt skref í þróun hljómsveitarinnar.

Hljómsveitin á alþjóðavettvangi

Við enduðum samtalið á því að ræða um erlend tónleikaferðalög DIMMU. Hljómsveitin hefur spilað í Bandaríkjunum, Rússlandi og víðar, en eftir að DIMMA skipti yfir í að syngja alfarið á íslensku hefur það gert hljómleikaferðir út fyrir landssteinana erfiðari. Mögulega  taka þeir vinsælustu lög sín upp á ensku, þó að þeir hyggist halda sig við íslenskuna til frambúðar.

Tónleikarnir í Hörpu 11. október verður mögnuð upplifun sem sannir tónlistarunnendur ættu ekki að láta framhjá sér fara. DIMMA og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sameinast á sviði og skapa einstaka blöndu af þungarokki og sinfónískum hljóðheimi. Það er eitthvað alveg sérstakt við að upplifa kraftinn í DIMMU í þessu umhverfi og er undirritaður svo sannarlega spenntur fyrir því þessum tónleikaviðburði. Ástæða er til að hvetja alla sem hafa áhuga á tónlist til að tryggja sér miða og verða hluti af þessu tónlistarævintýri.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing