Á sunnudaginn næsta verður boðið upp á öðruvísi matarupplifun í miðbæ Reykjavíkur.
Dóri DNA og félagi hans Ben Boorman standa fyrir viðburðinum FUGL, á vínstúkunni Tíu sopar, þar sem þeir munu bjóða upp á djúpsteiktan kjúkling.
„Svo er það líka hið augljósasta mál að það er ekki KFC í miðbænum. Á sunnudögum eru nánast hópferðir af fólki að fara á KFC. Þannig að við ákváðum að tjalda til með vinum okkar á vínstúkunni, alla vega til einnar nætur, og koma með KFC til fólksins. Þeir á vínstúkunni eru meistarakokkar.” sagði Dóri í samtali við Fréttablaðið.
Dóri hefur áður verið með “pop-up” veitingastað en þá seldi hann kjúkling út um glugga heima hjá sér. Hann segist einfaldlega elska kjúkling og bætir því við að það sjáist nú alveg á honum.
Þeir ætla að reyna að endurgera heimsfrægu brúnu sósuna sem KfC býður upp á en félagarnir taka það fram að Raggi og Óli hjá vínstúkunni munu sjá alfarið um eldamennskuna á sunnudaginn. Boðið verður upp á að para kjúklinginn saman við svokölluð orange náttúruvín.
Viðburðurinn hefst kl 17.00 á sunnudaginn á vínstúkunni Tíu sopum við Laugaveg 27.