Samninganefnd Eflingar gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hefur frestað verkfallsaðgerðum frá og með miðnætti. Taka þessar aðgerðir til allra félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og Sveitarfélaginu Ölfus.
Í tilkynningu sem samninganefnd Eflingar hefur sent frá sér segir:
„COVID-19 faraldurinn hefur leitt til mikillar óvissu á öllum sviðum samfélagins, meðal annars í starfsemi stofnana þar sem okkar félagsmenn vinna. Í því ástandi teljum við skynsamlegast að fresta verkfallsaðgerðum þangað til faraldurinn er liðinn hjá. Við höfum átt samráð við okkar félagsmenn um þessa ákvörðun og tökum hana með stuðningi þeirra.
Við munum aldrei taka annað í mál en að félagar okkar hjá Kópavogi, Seltjarnarnesbæ og víðar fái kjarabætur sambærilegar þeim sem var í kjarasamningum Eflingar við ríkið og Reykjavíkurborg. Við erum tilbúin að hefja verkfallsaðgerðir af krafti á nýjan leik þegar faraldurinn hefur gengið yfir og það er eindregin stuðningur meðal félagsmanna okkar fyrir því. Þá höfum við móttekið afgerandi samstöðuyfirlýsingu frá félögum okkar hjá Reykjavíkurborg. Við erum því reiðubúin að mæta fílefld í verkfallsaðgerðir innan nokkurra vikna, mögulega í umfangsmeiri og beittari mynd en hingað til.“
Þetta kemur fram á vef Rúv