Auglýsing

Eftirminnilegustu skandalar Óskarsins

Hvílíkt og annað eins kvöld. Það var nóg í boði fyrir nátthrafna sem nenntu að vaka eftir athöfninni löngu. Þau sem fóru snemma í bólið vöknuðu við heldur betur áhugaverðar fréttir.

Til að mynda var besta mynd kvöldsins leikin nærri því að mestu á táknmáli. Besti leikstjóri kvöldsins var kvenkyns, annað árið í röð. Teiknuð heimildamynd var tilnefnd í þremur flokkum og tapaði þem öllum. Já, svo rölti Will Smith upp á svið og löðrungaði Chris Rock í þráðbeinni útsendingu.

Áður en við segjum ykkur hvað var í gangi þar á bæ, skulum við rifja upp fleiri skemmtilega og fyndna skandala sem hristu vel upp á stóra sviðinu.

Liz Taylor vinnur fyrir mynd sem hún hataði

Það er nokkuð algeng skoðun á meðal kvikmyndaáhugafólks að Elizabeth Taylor er á meðal merkustu leikkvenna allra tíma. Hún hlaut fimm Óskarstilnefningar á áratuga löngum ferli sínum og vann tvisvar.

Ótrúlegt en satt þá var hún tilnefnd fjögur ár í röð, frá 1957 til 1960. Hún vann ekki fyrstu þrjú árin en hreppti styttuna árið 1960 fyrir myndina Butterfield 8.

Málið var að hún var ekki par ánægð með myndina né hlutverk sitt í henni. Svo ósátt var hún með að leika vændiskonu í svo lélegri mynd, að hennar sögn, að hún talaði illa um hana á opinberum vettvangi, eitthvað sem er alls ekki algengt á meðal þeirra allra frægustu.

Hún tók hlutverkið einungis að sér til að uppfylla samningskröfur MGM stúdíóssins. Á þeim tíma voru leikarar bundnir við eitt stúdíó nokkur ár í senn og Taylor orðin nokkuð þreytt á ferli sínum þar.

Það bjuggust fáir við að hún myndi vinna eftir að hafa talað svo illa um myndina. Hún hélt því áfram eftir sigurinn, enda fór ferill hennar enn meira á flug á þessum tíma. Einungis þremur árum síðar kom hún fram í algjörlega íkónísku hlutverki sem Kleópatra.

Djók, Travolta

John Travolta er sinn eigin flokkur þegar það kemur að óskarsskandölum. Leikarinn sjálfur er umdeildur bak og fyrir sökum tengsla sinna við Vísindakirkjuna en við förum ekki mikið dýpra í þá sálma hér. Frekar ætlum við að byrja á að minnast á skemmtilega fáránlegt atvik frá árinu 2014.
Teiknimyndin Frozen kom, sá og sigraði það ár og vakti sérstaka lukku með laginu Let It Go. Lagið vann sem besta upprunalega lag ársins og átti söng- og leikkonan Idina Menzel að flytja það á sviðinu.

Travolta mætti á svið til að kynna Menzel á svið og gerði það afspyrnu illa. Hann kallaði hana vissulega hæfileikaríka, en hann kallaði hana líka Adele Dazeem.

Leikarinn kunni fékk holskeflu af gagnrýni á sig en Menzel tók atvikinu léttilega. Ári seinna komu þau saman á Óskarnum til að kynna annan flokk, þá kynnti hún Travolta sem Glom Gozingo. Það stoppaði hann ekki frá því að þukla á andliti hennar, eitthvað sem öllum, ekki bara Menzel, þótti ofboðslega óþægilegt.

Raunasögu Travolta á Óskarnum lýkur því miður ekki hér. Ári síðar kyssti hann Scarlett Johannson úr launsátri þegar verið var að taka myndir af henni á rauða dreglinum. Síðan þá hefur hann fengið einhvers konar kennslu í samskiptum við annað fólk. Sennilega ekki samt.

Vitlaus mynd! Vitlaus mynd!

Geta ekki flestir tengt við þann ótta að lesa upp vitlaust nafn í hvaða aðstæðum sem er? Það hefur gerst í MORFÍs, oftar en einu sinni í Ungfrú Heimur og já, á Óskarnum líka.

Árið 2016 var stútfullt af sterkum kvikmyndum og margar þeirra voru tilnefndar á hátíðinni. Þegar öllu var á botninn hvolft voru það La La Land og Moonlight sem þóttu líklegastar. Sú fyrri hreppti sex styttur, meðal annars fyrir leikstjórn og bestu leikkonu í aðalhlutverki, og virtist ætla að fá þá sjöundu þegar kvöldinu var að ljúka.

Kvikmyndagoðsagnirnar Faye Dunaway og Warren Beatty mættu á svið og kynntu tilnefningarnar áður en umslagið var rifið upp. Það var smá hik á þeim báðum en á endanum tók Faye umslagið af fyrrum meðleikara sínum og tilkynnti hátt og snjallt að La La Land væri mynd ársins.
Teymið á bak við myndina hljóp upp á svið og fagnaði ákaft – en það var samt eitthvað ekki í lagi. Á endanum kom það í ljós að hjúin héldu á vitlausu umslagi, þar stóð Emma Stone með La La Land í sviga fyrir neðan.

Misskilningurinn var leiðréttur nokkuð hratt og örugglega, sem sannaði að Akademían er með einhvers konar verkferla á bak við mögulega vitlaust upp lesin nöfn.

Það var einmitt smá skandall árið 1992 þegar Marisa Tomei vann sem besta leikkona í aukahlutverki. Hún þótti betri en Vanessa Redgrave og Joan Plowright, þungavigtarleikkonur með áratugi að baki sem þóttu talsvert líklegri til að vinna styttuna. Það gekk samsæriskenning á milli fólks árum saman að kynnirinn hafi lesið vitlaust nafn og ekki þorað að viðurkenna mistök sín. Fíaskóið árið 2017 sannaði að ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það leiðrétt.

South Park höfundar herma eftir Gwyneth Paltrow og Jennifer Lopez

Myndatexti: Fyrir vorvitna þá er Trey Parker í græna kjólnum hennar J.Lo og Matt Stone skartar bleika dressinu hennar Gwyneth.

Prakkararnir á bak við South Park höfðu lítið annað í huga en að valda usla þegar þeir mættu á hátíðina árið 2000. Trey Parker og Matt Stone voru þegar búnir að vekja mikla athygli á sér með vinsældum þáttanna, en kvikmyndin South Park: Bigger, Longer and Uncut sló einnig rækilega í gegn árið 1999.

Eitt af lögum myndarinnar, Blame Canada hlaut tilnefningu sem besta upprunalega lag og því ákváðu drengirnir að fagna með því að mæta klæddir eins og Gwyneth Paltrow og Jennifer Lopez.

Uppátækið fór mis vel í pöpulinn, samkvæmt drengjunum var helmingur viðstaddra hrifinn af gríninu en aðrir voru ofboðslega reiðir. Klæðavalið í eins konar mótmælaskyni. „Óskarinn er einhvern veginn allt sem við teljum okkur vera á móti,“ sagði Trey Parker í viðtali síðar meir.
Parker fór ekki heim með styttuna fyrir besta lagið, en þeir fóru heim með eftirminnilegt Óskarsmóment og gulltryggingu um að verða aldrei boðið aftur.

Og já, þeir voru rammskakkir á sýru í ofanálag.

Marlon Brando afþakkar pent

Staður Marlon Brando í kvikmyndasögunni er nokkuð áhugaverður. Á stóra tjaldinu er hann einn sá merkasti, með átta Óskarstilnefningar á bakinu, þar af sjö fyrir leik í aðalhlutverki. Hann er heimsþekktur fyrir mörg hlutverk sín, gólandi á Stellu í rigningunni eða sem útreiknaður mafíósaforingi með kött í kjöltunni.

Út á við hins vegar gekk Brando ekki alveg heill til skógar. Hann var með einstaka skapgerð og til eru svo margar sögur af manninum að ein bók væri ekki nóg. Hægt væri að skrifa heila bók bara um framleiðslu kvikmyndarinnar The Island of Dr. Moreau, þar sem hann vildi leika höfrung, vera með fötu á hausnum í atriði og fékk dverg til að vera með sér í flestum atriðum.

Af þessum átta Óskarstilnefningum hlaut hann tvenn verðlaun, einu sinni fyrir On the Waterfront og í seinna skiptið fyrir The Godfather.

Það vakti athygli að hann kaus að neita verðlaununum, eitthvað sem aðrir leikarar hafa gert oft, á einstakan hátt. Hann sendi konu að nafni Sacheen Littlefeather til að flytja ræðu um illa meðferð Bandaríkjamanna á indjánaþjóðum landsins.

Salurinn tók ekki eins vel í uppátækið og Brando hefur vonað. Einhverjir klöppuðu en aðrir púuðu á konuna, sem reyndist heita Marie Louise Cruz og var leikkona sem var þó að hluta til af Apache ættum.

Öðrum leikurum, eins og George C. Scott, dugaði að segja bara pent nei og halda sig heima.

Michael Moore nýtir sviðið til að láta púa á sig

Á meðan sumir neita verðlaunum sínum í mótmælaskyni, nota sumir sigurtækifærið til að mótmæla hinu og þessu í eigin persónu. Þar má nefna Frances McDormand og Patricia Arquette nýtt sigur sinn til að mótmæla launamisrétti kynjanna, Al Gore og Leonardo DiCaprio vakið athygli á loftslagsvánni og Matthew McConaughey vakti athygli á … tja … engu sérstöku? Hann talaði um margt og mikið, þar á meðal gumbo og kökusneiðar.

Árið 2003 vann heimildamyndasmiðurinn Michael Moore fyrir Bowling for Columbine. Hann tók með sér upp á svið fólkið á bak við hinar tilnefndu heimildamyndirnar og fór svo að tala um George Bush og Íraksstríðið.

Í seinni tíð er fólk almennt sammála um að þessi tvenna var algjör farsi frá upphafi til enda. Árið 2003 hins vegar var fólk ekki alveg svo móttækilegt.

Salurinn púaði á Moore eiginlega um leið og hann minntist á kosningar og gólin mögnuðust bara með hverju orði. Á endanum var hann spilaður út með skömm.

Will Smith löðrungar Chris Rock

Hvað í fjandanum gerðist hér? Kvöldið hafði gengið svo gott sem átakalaust fyrir sig þegar grínistinn Chris Rock steig á svið og átti að kynna bestu heimildamynd ársins. Hann brandaraðist aðeins í salnum til að hita upp og skaut meðal annars nokkrum skotum í átt að Will Smith og frú, Jada Pinkett-Smith.

“Jada, ég elska þig, hlakka til að sjá þig í G.I. Jane 2,” sagði hann og vísaði í örstutta klippingu hennar, sem var lík því hári sem leikkonan Demi Moore skartaði í myndinni G.I. Jane árið 1997. Jada þjáist af hárlosi (e. alopecia) og hefur tjáð sig opinberlega um sjúkdóminn.

Will Smith rölti upp á svið og sló Rock utan undir áður en hann rölti til baka og fékk sér sæti. Rock brást við með hlátri. Smith kallaði upp á svið að Rock skyldi ekki minnast á konu sína aftur – tvisvar.
Áhorfendum var ef til vill jafn brugðið og Rock. Brandarinn var langt fyrir neðan belti og viðbrögðin voru ofbeldisfull. Fólk hefur þó dregið í efa atburðarásina og telja margir að kinnhesturinn hafi verið sviðsettur.

Það getur allt gerst í þráðbeinni og myndbandið af atvikinu segir allt sem segja þarf. Útsendingarstjórar klipptu á hljóðið eftir að einhver skynjaði að f-orðið færi brátt á flug. Það reyndist kór rétt ákvörðun, enda sagði Smith “Þú heldur nafni konu minnar úr fokking kjaftinum á þér,” ekki einu sinni, heldur tvisvar. Það er fátt sem Bandaríkjamenn þola minna en þetta orð í beinni útsendingu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing