Auglýsing

„Ég elskaði að dansa en ætlaði aldrei að verða dansari“

Steinunn Jónsdóttir er ein Reykjavíkurdætra og meðlimur hljómsveitarinnar Amabadama. Hún segir Eurovision-keppnina hafa markað ákveðin kaflaskipti hjá Reykjavíkurdætrum og sem hafi fundið óvænt mikinn meðbyr – fyrir það er hún mjög þakklát.

Hún segir landann loks tilbúinn fyrir það sem Reykjavíkurdætur standa fyrir en stelpurnar hafa notið vinsælda og virðingar erlendis sem hefur birst með ýmsum hætti. Steinunn missti móður sína ung og segir að sú reynsla hafi mótað sig mikið.

Þetta er brot úr lengra viðtali. Finna má það í heild sinni á áskriftarvef Birtíngs.

Sjö daga fríáskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.

 

Steinunn er glæsileg, brosmild ung kona og afar hæfileikarík. Hún er um margt fyrirmynd, hún kippir sér ekki upp við smámuni og tekur því sem að höndum ber með bros á vör ef svo má að orði komast. Lífið hefur kennt henni hvað það er sem skiptir máli og hvað ekki.

Eftir undankeppni Eurovision hér heima lentu Reykjavíkurdætur í öðru sæti en Steinunn segir að eftir nokkurra ára samstarf Reykjavíkurdætra sé landinn loks tilbúinn fyrir bæði tónlist og femínísk viðhorf þeirra, það hafi glatt hana mest. Keppnin var spennandi og valið á endanum stóð á milli tveggja ólíkra keppenda. Reykjavíkurdætur buðu upp á flotta sýningu og lagið var gott, vann á með hverri hlustun eins og góð tónlist gerir. „Við lögðum allt í þetta, fengum „visul artista“ og „make up artista“, við fórum bara alla leið og líka í búningunum.“

„Það var mikið fyrir fólk að sjá allt í einu níu konur uppi á sviði, með alls konar líkama að flytja boðskap. Á þessum tíma var ekki rými fyrir neitt annað en einhverja ákveðna líkama, ákveðna rödd og ákveðið útlit.“

Spegill á samfélagið

Reykjavíkurdætur hafa spilað í allnokkur ár um Evrópu og fengið mjög góðar móttökur. Þær hafa unnið til verðlauna og verið í viðtölum í tímaritum á borð við Rolling Stone og New Musical Express. En enginn er spámaður í sínu heimalandi.

„Við höfðum fengið skrýtnar móttökur á Íslandi fram að keppninni og við bjuggumst við hverju sem var. En svofundum við svo mikinn meðbyr í kommentakerfunum og það er ákkúrat það sem ég varð svo meyr yfir.Þessi keppni markaði kaflaskipti hjá okkur á Íslandi. Við höfðum tekið meðvitaða ákvörðun um að einbeita okkur ekki að Íslandi, líka hreinlega geðheilsunnar vegna, við fundum að það var bara enginn meðbyr. Á meðan höfum við ferðast mjög mikið um Evrópu frá 2016 og fengið mikla jákvæða orku, fólk skildi um hvað okkar konsept snerist og fílaði okkur. Það er þetta sem mér finnst vera að gerast núna á Íslandi, loksins, og það er dásamlegt. Margar stelpur og strákar sem eru með okkur.“

Hvað heldurðu að hafi gerst?
„Reykjavíkurdætur hafa alltaf verið svolítið spegill á stöðu kvenna í samfélaginu og hvernig hún hefur þróast til betri vegar, Metoo hefur líka haft áhrif. Fólk hefur ekki fylgst með okkur vaxa frá því að við komum fram fyrir níu árum, við höfum mótast hver og ein og saman.“

Eruð þið ólíkar?
„Við eigum mjög margt sameiginlegt, komum frá líkum heimilum, höfum haft líkar væntingar, við eru allar í eldmerkjum og finnst gaman að koma fram og vera í list.“

Er hluti af þessu að ögra?
„Ekkert endilega, það var mikið fyrir fólk að sjá allt í einu níu konur uppi á sviði, með alls konar líkama að flytja boðskap. Á þessum tíma var ekki rými fyrir neitt annað en einhverja ákveðna líkama, ákveðna rödd og ákveðið útlit. Við pössuðum ekki þarna inn.“

Steinunn segir að þær hafi allar lært tónlist eða dans. Sjálf lærði hún á víólu og var í dansi. „Það er eðlilegt þá að maður láti sig dreyma um að fara þessa leið. En það var skortur á fyrirmyndum þegar ég var yngri og ekkert sem hvatti konur til að koma fram með sína tónlist. Sjálf byrjaði ég að koma fram 2013 og svo kom Salka Sól upp í Amabadama og varð mjög áberandi og ein aðalsöngkona landsins, hún náði til allra. Síðan hafa komið margar flottar og frambærilegar konur með sína tónlist og ólíkar raddir, GDRN, Bríet, Matthildur og fleiri. Litlar stelpur í dag sjá allan skalann af tónlistarkonum. Ég vona að þetta skili sér til viðburðahaldara, konur hafa verið allt of lítið áberandi á alls konar hátíðum og viðburðum. Skýringarnar sem eru gefnar eru að þær séu ekki nógu vinsælar. En það eru svo margar ótrúlega frambærilegar konur sem eru að gera mjög flotta hluti,“ segir Steinunn með áherslu.

Hefur gott gengi tónlistarkvenna eins og Hildar Guðna og Önnu Þorvalds ekki haft áhrif? „Það ætti að vera, en það er alltaf talað um vinsældirnar, kynjakvóti hefur skilað sínu, það þarf að vera meðvituð ákvörðun um að hafa konur, Iceland Airwaves gerði það sem skilaði sér í jöfnu hlutfalli kynja. Í Söngvakeppninni er hlutfallið gott fyrir konur.“

Í Amadabama voru náttúrlega 8 karlar og 2 konur en við vorum í forgrunni. Það gekk mjög vel. Við höfum ekki spilað saman í töluverðan tíma en erum eiginlega tilbúin með plötu. Við Maggi, maðurinn minn, sem er í hljómsveitinni erum að byggja nýtt hljóðver í bílskúrnum og þá verður hægt að klára plötuna í sumar,“ segir hún glöð í bragði.

En nú elst þú upp á skapandi heimili, byrjaðir þú snemma í tónlistinni? „Ég byrjaði fyrst í kór hjá Möggu Pálma, sex ára í Grensáskirkjukórnum og síðan var ég í fyrstu kynslóð í Stúlknakór Reykjavíkur, með stelpum sem eru einar af mínum bestu vinkonum í dag. Ég fór í Tónlistarskóla Kópavogs sjö ára og lærði á víólu, valdi hana vegna þess að mótursystir mín, Jónína Hilmarsdóttir, var víóluleikari. Ég var eini víólónemandinn í skólanum og fékk því fleiri tækifæri. Þetta gerði mér gott, en ég var líka í dansi.“

Með marga bolta á lofti

Steinunn ákvað í menntaskóla að fara í Listdansskólann á nútímalistdansbraut, hún segir að námið hafi verið krefjandi einkum með öðru sem hún stundaði. „Fyrstu tvö árin í MH var ég sem sagt í vínólunámi, kórnum og dansinum, þetta var heilmikið púsl. Ég tók ekki bílpróf fyrr en ég var tvítug svo þetta var heilmikið fyrir foreldra mína.“

Var eitthvað eitt sem togaði í þig frekar en annað? „Ég ætlaði reyndar alltaf að verða leikkona,“ upplýsir hún og brosir. „Ég elskaði að dansa en ætlaði aldrei að verða dansari. Ég var ekki með þennan týpíska dansaralíkama, ég er mjög hávaxin og ekki tággrönn. Sama var með víóluna. Mér gekk vel í þessu og vissi að ég myndi nýta mér þetta á einhvern hátt.“

Steinunn fór síðan í kvikmyndafræði í háskólanum. „Allt sem ég hef lært hefur nýst mér. Ég sviðset þegar við Reykjavíkurdætur komum fram, geri kóreógrafíuna. Bæði Blær og Steiney koma stundum inn með mér en ég hef gert þetta allan tímann og finnst ofboðslega gaman að búa til ferðalag á sviðinu. Fyrir Söngvakeppnina vorum við með kóríógrafer og það var æðislegt, ég gat þá blómstrað í öðru á meðan.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing