Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, var gestur í hlaðvarpsþætti Snorra Björns sem birtist á hlaðvarpsveitum í dag.
Þar ræðir hann meðal annars ferilinn við Snorra og meiðslin sem hann hlaut árið 2018 en Aron meiddist illa í næst síðasta deildarleiknum með Cardiff í ensku úrvalsdeildinni, stuttu fyrir HM í Rússlandi. Þrátt fyrir að hafa meiðst bæði á hné og ökkla var hann mættur á fyrsta leikinn gegn Argentínu.
,,Meiðslaaðdragandinn að mótinu var eiginlega bara djók sko. Ég fer í ökklanum í næst síðasta leiknum á tímabilinu með Cardiff. Ég finn bara eitthvað fara í ökklanum og þetta er eftir 10 mínútna leik. Ég sendi boltann bara útaf og leggst niður,“ sagði Aron.
,,Svo bara fór ég að hugsa með mér: ‘Nei, HM, þetta er búið.’ Mér leið eins og ökklinn væri farinn. Ég stend upp og finn að ég er læstur í hnénu og bara rykki hnénu bara upp og þá heyri ég annan smell og hugsaði bara hvað væri í gangi. Hnéð var farið og svo byrjaði ég að labba með sjúkraþjálfaranum inn í klefa og svo líður yfir mig. Ég fékk geggjað þungt fyrir brjóstið og allt blörrað.“
,,Ég sest í hjólastól, þeir bera mig inn og það fyrsta sem ég skrifa til Kristbjargar er að HM sé farið. Hún spyr hvað ég meina, hún svaraði mér fimm mínútum seinna og spyr hvað sé í gangi og reynir að hringja. Þá sá hún á Sky Sports News eða eitthvað eða LiveScore að mér væri skipt útaf eftir 10 mínútur. Það er ekkert eðlilegt.“
Eftir frekari skoðanir kom í ljós að ástandið á hnénu var ekki eins slæmt og hann hélt.
,,Svo byrja að hrannast inn sms-in frá strákunum í liðinu, Jóa Berg, Gylfa og öllum þeim. Ég bara veit ekkert hvað er í gangi. Hnéð fór, ökklinn fór og svo bara daginn eftir er ég kominn í myndatöku, MRI, ég fer fyrst í hægra hnéð og það er hálftími eða eitthvað. Ég er undir þessu ógeðis apparatti þarna. Maður getur ekki verið kyrr í þessu þegar allt er í rugli í hnénu og svo ökklanum. Svo fer ég í hálftíma í ökklann.“
,,Ég veit að þau eru frammi, konan, læknarnir og sjúkraþjálfararnir eru frammi og búin að sjá skönnin. Ég sest upp eftir ökklaskannið og einhvern veginn tek djúpan andadrátt, labba fram og ég horfði fyrst á Kristbjörgu og hún brosir. Þá byrjaði ég bara að hágrenja sko. Ég vissi þarna að ég ætti möguleika á að ná HM. Ég hugsaði að ég yrði að ná HM. Það er stutt í HM og ég ætla að ná HM. Svo sé ég hana brosa en þau hafa ekki séð ökklaskannið en samt sem áður því mér leið eins og hnéð væri miklu verra en ökklinn.“
,,Hann tekur mig inná skrifstofuna sína, læknirinn og segir að það sé um tvennt að velja: Annað gat ég lagað liðþófan sem var farinn, hann flippaðist yfir og þess vegna gat ég ekki lyft löppinni, annað hvort lögum við hann, saumum hann saman eða við fjarlægjum 40 prósent. Ég spurði hvað það væri langur tími og hann segir að ég verði í fjóra mánuði að jafna mig ef ég laga en ef ég fjarlægi hann þá þurfum við að sjá til. Ég tók hann út og fór svo heim. Svo fæ ég símhringingu tveimur mínútum seinna um að ökklinn sé í hakki.“
Hér fyrir neðan má hlusta á þáttinn í heild sinni.