Auglýsing

„Ég hef unnið fyrir þessu öllu, en það er oft galið hvað maður hefur fengið að upplifa margt merkilegt”

Björn Stefánsson er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í podcasti Sölva. Hann var trommuleikari í hljómsveitinni Mínus en skipti síðan um takt og gerðist leikari.

„Maður hefur upplifað augnablik sem er hægt að kalla ákveðna myllusteina. Ég man til dæmis eftir því þegar ég var að sýna Mávinn í Macau í Kína. Sýningin byrjar á því að ég sit á bekk og bíð eftir að sýningin byrji og fyrir framan mig er fullur salur af asísku fólki. Á svona augnablikum hugsar maður hvernig þetta gerðist. Ég ætlaði ekki einu sinni í leiklist, en svo er maður kominn í aðra heimsálfu með leiksýningu. Ég hef unnið fyrir þessu öllu, en það er oft galið hvað maður hefur fengið að upplifa margt merkilegt,” segir Björn.

Björn rifjar einnig upp mögnuð augnablik þegar hann var í hljómsveitinni Mínus.

„Unglingurinn í mér fríkaði alveg út þegar við hituðum upp fyrir Metallica þegar þeir komu til Íslands. Það var eitthvað rafmagn í loftinu sem ég hef aldrei fundið. Þarna fann ég þetta augnablik þar sem ég hugsaði, þetta er ástæðan fyrir því að ég er trommuleikari, þetta var hrikalega skemmtilegt tímabil, en þetta er svolítið eins og að vera í hjónabandi og tekur á líka. Ég á einstakt samband við alla þessa stráka sem voru í bandinu og við erum með bræðralag sem er ótrúlegt eftir að hafa gert alla þessa hluti saman,” segir hann.

Hann hefur unnið við leiklist síðustu ár og fór á tímabili fram úr sér í vinnu.

„Þú ert ekkert alltaf tilbúinn að fara á svið. Það koma dagar þar sem maður er kannski með hita eða slappur, en maður þarf bara að fara á svið og gera þetta. Eins og Ellý, sem var sýnd meira en 200 sinnum. Þá koma alls konar dagar, en einhvern veginn var hópurinn svo frábær að á endanum verður þetta alltaf skemmtilegt, en svo kom kafli þar sem ég vann of mikið,“ segir Björn sem var á endanum hættur að sofa.

„Ég var búinn að vera með kveikt á kertinu báðum megin í of langan tíma. Fyrir tveimur árum síðan var ég í fjórum sýningum í einu. Ellý, Bláa Hnettinum, Himnaríki og Helvíti og ég var að æfa Rocky Horror líka. Þetta átti ekki að gerast, en Ellý varð svo vinsæl sýning og svo hittist þetta svona á. Ég fúnkeraði á sviðinu, en svo krassaði ég algjörlega. Ég fór til leikhússtjórans og sagði henni að ég væri að vinna of mikið og hún fór í að finna lausn á þessu. Ég upplifði þetta tímabil þannig að heilinn í mér var hættur að taka almennilega á móti upplýsingum, ég var einhvern veginn bara að reyna að komast í gegnum dagana, en mér leið eins og ég væri hættur að geta lært og heilinn væri einhvern vegin að slökkva á sér.“

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing