Hinn heimsfrægi flúrari Oliver Peck er nýjasti viðmælandi þáttarins „Blekaðir“ á hlaðvarpsveitunni Brotkast en þangað mætti hann ásamt Össuri Hafþórssyni, eiganda Reykjavík Ink.
Þennan Oliver Peck þekkja margir Íslendingar úr raunveruleikaþáttunum Ink Master en um er að ræða eina vinsælustu sjónvarpsþáttaröð sem snýst um húðflúr í heiminum. Oliver var einn af þremur dómurum þáttanna og tók þátt í þrettán þáttaröðum – allt frá árinu 2012. Í dag er þáttaröð fimmtán í gangi og engan Oliver er að sjá. Hann hvarf úr Ink Master eftir, eins og áður segir, þrettán þáttaraðir.
Blandlitaður á samfélagsmiðlum
En afhverju? Jú. Í bandarískum fjölmiðlum dúkkaði upp mynd af Oliver Peck þar sem hann var með það sem kallast „blackface“ eða „blandlit“ – eitthvað sem talið er hinn mesti ósiður og tímaskekkja á vesturlöndum. Hann fór yfir málið í þættinum á Brotkast.
Hvað er „Blekaðir“ ?
Ef þú ert með húðflúr og langar að fá þér fleiri eða ef þú ert bara forvitin/n um þennan leyndardómsfulla listamannaheim sem flúrlistin er og ef þú ert ekki að fylgjast með þættinum „Blekaðir“ á hlaðvarpsveitunni Brotkast þá þarftu að hysja upp um þig.
Dagur Gunnar og Ólafur Laufdal eru listamennirnir á bakvið þættina en það eru nánast ekki til svæði á líkamanum sem annar hvor þeirra hefur ekki flúrað.
Nútíminn fékk góðfúslegt leyfi til að birta brot úr þættinum.