Vinsældir rafhlaupahjóla hafa aukist mikið að undanförnu hér á landi enda frábær farartæki, séu þau notuð rétt. Um fimmti hver Reykvíkingur notar rafhlaupahjól og er notkunin mest í aldurshópnum 18 til 24 ára. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun Gallup fyrir Reykjavíkurborg en ætla má að notkunin aukist enn meira yfir sumartímann. Rafhlaupahjólaleigum fjölgar og stækkar þjónustusvæði þeirra jafnt og þétt. Einhverjar leigur bjóða nú upp á þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins og er því ljóst að notendahópur þessara hjóla fer ört stækkandi.
EINN TIL TVEIR LEITUÐU DAGLEGA Á BRÁÐAMÓTTÖKU
Síðasta sumar leituðu daglega 1-2 einstaklingar að jafnaði aðstoðar bráðamóttöku vegna slysa á rafhlaupahjóli. Tölfræði, bæði frá Samgöngustofu og Landspítala, sýnir að nauðsynlegt er að auka fræðslu um notkun og öryggi þessara hjóla. Allir sem stíga á rafhlaupahjól ættu að gefa sér tíma til kynna sér öryggisreglur og prófa hjólið á öruggu svæði áður en haldið er af stað. Foreldrar þurfa að kynna sér hjólin vel áður en þau setja þau í hendur barna sinna og bera ábyrgð á að undirbúa þau áður en þau fara út í umferðina.
ÖRYGGI ÞITT
Mörgum er óljóst hvort og hvaða reglur gilda um akstur þessara tækja. Til að stuðla að auknu öryggi á rafhlaupahjólum hefur Samgöngustofa nú gefið út fræðslumyndband, upplýsingasíðu (samgongustofa.is/rafhlaupahjol) og einblöðunga á íslensku, ensku og pólsku þar sem farið er yfir helstu öryggisatriði.
-
- Ert þú með öryggisreglurnar á hreinu?
- Rafhlaupahjól tilheyra flokki reiðhjóla og um þau gilda sömu reglur og um reiðhjól að því undanskyldu að þeim má ekki aka á akbraut.
- Ef hjólið er hannað til að komast hraðar en 25 kílómetra á klukkustund er það ólöglegt.
- Á þeim er ekki lögbundið aldurstakmark en ávallt skal fara eftir viðmiðum framleiðanda sem og reglum hjólaleiga hvað varðar aldursmörk.
- Börnum undir 16 ára aldri ber að nota hjálm og mælt er með því að fullorðnir noti einnig hjálm.
- Ekki má hafa farþega á rafhlaupahjóli.
- Hjólin má nota á hjólastígum og göngustígum en innan um gangandi vegfarendur skal sýna þeim sérstaka tillitsemi og nota bjöllu þar sem við á.
- Hjólin má aldrei skilja eftir þannig að þau valdi öðrum vegfarendum óþægindum.·
- Ekki má nota rafhlaupahjól undir áhrifum áfengis eða vímuefna og sömuleiðis er bannað að nota farsíma á ferð.