Einn heppinn miðaeigandi vann 5 milljónir króna í Aðalútdrætti Happdrættis Háskóla Íslands en dregið var í kvöld. Annar fékk 500 þúsund króna vinning en þar sem hann var með trompmiða fimmfaldast vinningurinn svo hinn heppni miðaeigandi fær 2,5 milljónir króna í sinn hlut. Átta miðaeigendur fengu eina milljón króna hver og nítján fengu hálfa milljón.
Í allt skiptu tæplega 3.600 miðaeigendur með sér tæpum 118 milljónum í skattfrjálsa vinninga eftir júlíútdráttinn. Sexfaldur pottur í Milljónaveltunni gekk ekki út og verður hann því sjöfaldur í ágúst og 70 milljónir í pottinum.
„Happdrætti Háskóla Íslands óskar vinningshöfum innilega til hamingju með vinninga sína og gleðst yfir því að halda áfram að fjölga heppnum Íslendingum,“ segir í tilkynningu frá HHÍ.