Auglýsing

„Eins og tónlistin velji þig en ekki öfugt“ 

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir hefur verið ein okkar ástsælasta og vinsælasta söngkona í fjölmörg ár þótt ung sé en ferill hennar hófst þegar hún var níu ára gömul. Einn fylgifiskur frægðarinnar er að verða að umtalsefni en Gróa á Leiti er oft óvægin og því hefur Jóhanna Guðrún fengið að kynnast oftar en einu sinni.

Stutt er síðan kaffistofur landsins loguðu þegar fréttir bárust af því að hún væri að skilja við eiginmann sinn og barnsföður, taka saman við gamlan kærasta og væri orðin ófrísk. Jóhanna Guðrún kippir sér ekki lengur upp við slíkar sögur en viðurkennir að henni hafi mislíkað þegar fjölmiðlar greindu frá óléttunni án hennar samþykkis og hún þurfti að tilkynna eldri dóttur sinni það í síma þar sem hún var í frístund eftir skóla að hún væri að fara að eignast systkini.

 

Þetta er brot úr lengra viðtali sem aðgengilegt er á vef Birtings.

 

Það er hellidemba úti þennan septembermorgun sem blaðamaður hittir Jóhönnu Guðrúnu á kaffihúsi í Hafnarfirði. Dóttirin, Jóhanna Guðrún, sem fæddist í apríl á þessu ári, er með í för og hin ánægðasta með athyglina sem gestir kaffihússins og blaðamaður veita henni. „Í rauninni gekk allt vel á meðgöngunni og í fæðingunni,“ svarar Jóhanna Guðrún aðspurð og dregur sokkana af litlum tásum. „Ég er með gigtarsjúkdóm og mér hafa yfirleitt fundist meðgöngurnar svolítið erfiðar; ég er oft með alls konar verki, ofboðslega þreytt og fyrstu fjórtán vikurnar með ógleði og svima. Fæðingarnar þrjár hafa hins vegar gengið fáránlega vel; ég hef í raun bara hoppað inn á deild, fætt barn og farið heim. Ég er mjög heppin með það.“

Fyrir átti Jóhanna dótturina Margréti, sem er að verða sjö ára í október, og Jón sem er þriggja ára. „Margrét er alveg ótrúlega dugleg og það er heilmikil hjálp í henni, hún spjallar oft við litlu systur sína og hefur ofan af fyrir henni svo ég næ oft að gera heilmikið á meðan. Jón er hins vegar algjör brjálæðingur,“ segir Jóhanna og skellir létt upp úr.

„Eins og tónlistin velji þig en ekki öfugt“

Nú vendum við okkar kvæði í kross. Jóhanna Guðrún er búin að stökkva út í bíl að sækja duddu handa þeirri stuttu sem lá ánægð í fangi blaðamanns á meðan. Við förum frá ástinni yfir í tónlistina. Sem tengist þó auðvitað ástinni að vissu leyti því söngurinn hefur verið ástríða Jóhönnu Guðrúnar frá því hún var lítið barn. Skyldi aldrei annað hafa komið til greina hjá henni en að leggja tónlistina fyrir sig? „Nei,“ segir hún og hristir höfuðið. „Mig hefur aldrei langað að fara að gera eitthvað annað og ég hef aldrei verið með eitthvað plan B. Þetta er planið,“ segir hún með áherslu. „Auðvitað hefði maður getað farið einhverja aðra leið í lífinu, þetta er alls ekki sú auðveldasta og í raun mjög ópraktísk að mörgu leyti. En, það er svolítið skrýtið, það er eins og tónlistin velji þig en ekki öfugt. Maður fær svo mikið út úr því að syngja og þetta verður hálfgerð fíkn því maður kemst oft í eitthvert flæði þegar maður syngur og það gefur manni svo gríðarlega mikið. Ég þarf sönginn til að mér líði vel. Ég man til dæmis að mér leið ekki vel þegar ég söng lítið vegna veikindanna eftir Eurovision af því að það vantaði svo stóran part í líf mitt.“

Togar ekkert í þig að fara út að syngja?

„Ég gerði það náttúrlega á sínum tíma að syngja erlendis, en í rauninni fattaði ég að mér er eiginlega alveg sama á hvaða kalíberi ég er að syngja svo framarlega sem ég fæ að gera það. Fórnirnar sem þú þarft að færa til að ná langt úti í heimi eru mjög miklar og þær taka tíma. Ég er búin að vega þetta og meta og mig langar að vera hér hjá fjölskyldunni minni og vinum. Þótt ferillinn skipti mig alveg gríðarlega miklu máli og hafi alltaf gert er svo margt annað sem skiptir máli í lífinu.“

„Væri kannski ekki hér ef ekki væri fyrir Grease“

Í maí síðastliðnum hélt óperusöngvarinn heimsfrægi Andrea Bocelli tónleika í Kórnum. Jóhanna Guðrún var ein af þeim gestum sem komu fram á tónleikunum og söng bæði ein og með söngvaranum. Hún segir það vissulega hafa verið gaman og mikinn heiður. „Tónleikarnir hittu samt á hræðilegan tíma því ég var bara nýbúin að eignast dóttur mína þegar þeir voru loks haldnir. Hún var bara þriggja vikna. Það var búið að fresta þessum tónleikum svo oft vegna COVID. En það er ekki hægt að segja nei við svona tækifæri og mamma var með litlu baksviðs og hjálpaði mér þannig að þetta hafðist allt.“

Jóhanna Guðrún spjallaði aðeins við Bocelli og eiginkonu hans sem var með í för baksviðs og hún segist hafa fengið það á tilfinninguna að þetta væri góð og falleg fjölskylda. „Það var enginn hroki í honum eða neitt svoleiðis. Mér fannst hann kannski virka svolítið þreyttur, enda örugglega ofboðsleg keyrsla að vera svona skemmtikraftur eins og hann er; að ferðast út um allan heim og koma fram þar sem allir búast við flugeldasýningu frá viðkomandi. Það er ekkert verið að pæla í því að viðkomandi hafi verið með heila tónleika í öðru landi í gær eða að hann sé illa sofinn eða með veikt barn. Og þótt söngvarar séu orðnir gamlir þá vill fólk heyra þá syngja stóru lögin. Maður sér það vel á þessum söngvurum sem eru með flugeldasýningar á hverjum tónleikum að það er erfitt að eldast sem svoleiðis söngvari, þetta er mjög óvæginn bransi. Það sést til dæmis bara á því hvernig fór fyrir Elvis Presley. Ég hef oft sagt við Eyþór Inga og Sverri Bergmann að við verðum í skítamálum þegar við erum orðin gömul,“ segir hún og hlær létt.

Hvað er fram undan í tónlistinni hjá þér? „Ég er með alls konar tónleika og verkefni á dagskránni. Ég tók upp eitt lag með Ásgeiri í Stop Wait Go fyrir jólin í fyrra, sem gekk mjög vel og við ætlum að halda áfram með það verkefni og gera nokkur lög alla vega í viðbót. Svo byrjar æfingatímabilið fyrir söngleikinn Chicago í nóvember, sem Leikfélag Akureyrar er að setja upp, en þar fer ég með hlutverk Velmu og er ótrúlega spennt fyrir því verkefni. Ég syng líka mikið í brúðkaupum og við útfarir sem mér finnst ofboðslega gefandi þótt útfarirnar séu sorglegar og erfiðar aðstæður. Síðan mun ég syngja á afmælistónleikum Gumma Jóns og syng hlutverk Sandy í tónleikauppfærslu á Grease núna í lok október. Það er auðvitað æðisleg tónlist sem allir þekkja. Það er nú svolítið gaman að segja frá því að mamma og pabbi fóru einmitt á fyrsta stefnumótið sitt að sjá Grease í bíó og byrjuðu saman upp úr því. Þannig að ég væri kannski ekki hér ef ekki væri fyrir Grease.“

Var það hápunktur ferilsins að syngja með Bocelli? „Ég veit það ekki,“ svarar Jóhanna Guðrún og hugsar sig um eitt augnablik áður en hún heldur áfram: „Ég geri mér grein fyrir því að þetta var mikill heiður en það er samt líka gaman að átta sig á því að mér finnst ekkert síðra að syngja með Eyþóri Inga, Sverri Bergmann eða Bjögga Halldórs. Ég er samt ekki að lasta gamla,“ segir hún og skellir upp úr, „Bocelli er náttúrlega frábær og á mörg flott lög, en við Íslendingar eigum bara svo svakalega flotta listamenn. Það má ekki gleyma því.“

 

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Hallur Karlsson
Förðun: Rebekka Hnikarsdóttir 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing