Söngvaskáldin Ragnheiður Gröndal, Kristjana Stefáns og Svavar Knútur halda sína árlegu jólatónleika undir yfirskriftinni „Eitthvað fallegt.“ Tónleikarnir heita eftir samnefndri hljómplötu þeirra sem kom út hjá Dimmu útgáfu árið 2014.
Á tónleikunum kennir ýmissa grasa úr jólagarðinum, bæði verða flutt sígild íslensk jólalög og frumsamin eftir listafólkið og er áherslan lögð á látleysi, einfaldleika og einlægni í flutningi. Allur hljóðfæraleikur er í höndum tríósins og er hljóðheimnum þannig haldið eins lágstemmdum og mögulegt er.
„Vegna Covid samkomubanns höfum við ákveðið að aflýsa „Eitthvað fallegt“ jólatónleikaröðinni en í staðinn bjóða upp á streymi frá tónleikum í Fríkirkjunni í Hafnarfirði síðasta sunnudag í aðventu, þann 20.desember kl.20:00. Til að tryggja gott hljóð og mynd streymum við í samstarfi við Moment House og Iceland Sync,“ segir í tilkynningu.
Þið kaupið miða hér: https://www.momenthouse.com/co/eitthva-fallegt og í kjölfarið kemur póstur á netfangið ykkar með hlekk á tónleikana. Passið að eyða ekki póstinum því á tónleikadaginn opnið þið póstinn og ýtið á „Enter Moment“ og þið eruð tengd. Það er gott að vera búin að undirbúa tölvuna eða snjallsjónvarpið með tengingu í góða hátalara eða koma sér vel fyrir uppí sófa með heyrnatólin. Myndataka og hljóð verða í bestu fáanlegum gæðum svo að allir njóti.
Miðaverð á streymið er 3.000 kr.
Þeir sem hafa fjárfest í miðum nú þegar á tónleikaröðina geta skipt miðunum sínum í rafræna miða eða fengið endurgreitt að fullu í gegnum tix.is.