Auglýsing

Ekki gleyma að fylgjast með mér

Ekki gleyma að fylgjast með mér er yfirskrift nýs árveknisátaks á sundstöðum sem var ýtt úr vör í dag. Markmiðið átaksins er að minna foreldra, forráðamenn og aðra á að fylgjast vel með börnum yngri en tíu ára þegar þeir fara með þeim í sund.

Að fara í sund er góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna og því fylgir bæði tilhlökkun og vellíðan. Á sama tíma bera þeir sem fara með börn í sund ábyrgð á að tryggja öryggi barna í sundi.

Undanfarið hafa Umhverfisstofnun og Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi (SFSÍ) rætt leiðir til þess að auka öryggi barna í sundi. Síðasta sumar birti Umhverfisstofnun áminningu til foreldra og forráðamanna um ábyrgð þeirra og reglur um aldur barna í sundi sem skilgreindar eru í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum (sjá frétt).

Nú hefur Umhverfisstofnun látið útbúa veggspjöld fyrir sundstaði um ábyrgð foreldra, forráðamanna og annarra sem fara með börn í sund um að passa upp á þau í sundi. Auk þess verða skjáauglýsinga og vefborða birtir á vefmiðlum. Sundstaðir munu einnig taka þátt í þessu átaki til árvekni með því að hafa efnið sýnilegt á sundstöðum. Markmiðið er að minna foreldra, forráðamenn og aðra á ábyrgð þeirra þegar þeir fara með börn yngri en 10 ára í sund og að þeir fylgist með börnunum og séu með þeim í og við laugarnar öllum stundum.

Umhverfisstofnun vekur athygli á að mikill árangur hefur náðst í öryggismálum á sundstöðum og slysum á börnum í sundlaugum hefur fækkað verulega undanfarin 20 ár. Þessum árangri er að mestu leyti rekstraraðilum sundstaða og starfsfólki að þakka. Auk þess sinna heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga eftirliti með öryggisþáttum sundlauga. Umhverfisstofnun hvetur þá sem fara með börn í sund og alla aðra til að leggja sitt að mörkum til að halda áfram á þessari leið og auka öryggi barna í sundi.

Í dag voru þessi plaköt og átakið: „Ekki gleyma að fylgjast með mér“ kynnt í Laugardalslaug, þar sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Sólveig Valgeirsdóttir úr samtökum forstöðumanna sundlauga á Íslandi fluttu ávörp.

Nánar má lesa um sund og öryggismál hér.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing