Eldur kom upp í timburhúsi við Samtún í Reykjavík í nótt. Tilkynnt var um eldinn um fjögurleytið og var allt tiltækt slökkvilið sent á staðinn. Þetta kemur fram á vef mbl.is
Ungur maður var kominn út úr húsinu þegar slökkvilið mætti á svæðið, að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, og reyndist maðurinn með töluverða reykeitrun. Hann var fluttur á slysadeild.
Nokkuð greiðlega gekk að slökkva eldinn en mikill reykur fylgdi eldinum og var á tíma óttast að eldurinn myndi læsa sig í þak hússins. Ekki er vitað um eldsupptök en húsið er töluvert illa farið eftir eldsvoðann.