Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út rétt eftir klukkan fjögur í dag. Þá logaði eldur í einbýlishúsi í Bröndukvísl og var einn íbúi fluttur á slysadeild.
Sigurjón Hendriksson varðstjóri hjá SHS segir í samtali við Fréttablaðið að tilkynning hafi borist um að kviknað væri í út frá kerti um klukkan 16:00. Ekki hefði tekist að slökkva eldinn og húsráðendur því forðað sér út úr húsinu.
Að sögn Sigurjóns gekk greiðlega að slökkva eldinn og slökkviliðið nú að reykræsta enda var mikill reykur í húsinu. Einn íbúi hússins var fluttur á slysadeild en meiðslin ekki talin alvarleg.