Auglýsing

Endurnýjun sjúkrabílaflotans hafin – 25 nýir bílar keyptir

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um kaup á 25 nýjum sjúkrabílum liggur fyrir í kjölfar útboðs Ríkiskaupa. Þar með er endurnýjun sjúkrabílaflotans hafin í samræmi við samkomulag Sjúkratrygginga Íslands og Rauða krossins á Íslandi frá 11. júlí síðastliðnum. Reiknað er með að fyrstu bílarnir verði afhentir fullbúnir til notkunar í september á næsta ári. Frá þessu er sagt í tilkynningu á vef Sjúkratrygginga Íslands.

Stórbætt aðstaða fyrir sjúklinga og sjúkraflutningamenn

Fyrirtækið Fastus átti tilboðið sem skoraði hæst og var tekið. Bílarnir 25 eru af tegundinni Mercedes Benz Sprinter. Þeir eru stórir og rúmgóðir sem tryggir sjúklingum góðar aðstæður, auðveldar sjúkraflutningamönnum að sinna þeim um borð og eykur þannig öryggi þjónustunnar. Í útboðinu var áhersla lögð á að nýir bílar myndu uppfylla ströngustu kröfur sérfræðinga varðandi öryggi, aðbúnað og vinnuumhverfi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þetta stóran og kærkominn áfanga: „Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er sérstök áhersla lögð á skilvirka og öfluga sjúkraflutninga sem lið í því að jafna aðgengi landsmanna að góðri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Endurnýjun sjúkrabifreiða og búnaðar skiptir þar miklu máli, til að halda uppi tilskildum gæðum, tryggja öryggi sjúklinga og sjúkraflutningamanna og standa undir umfangi þjónustunnar til framtíðar” segir heilbrigðisráðherra.

Endurnýjun nær alls flotans á tveimur árum

Samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi er gert ráð fyrir að alls verði 68 sjúkrabifreiðar endurnýjaðar fyrir árslok 2022, en flotinn samanstendur af um 80 bílum alls. Samkomulagið gerir því ráð fyrir endurnýjun á stærstum hluta þeirra sjúkrabíla sem nú eru í notkun á samningstímanum. Með þessu mun takast að endurnýja alla sjúkrabíla sem eru í fremstu röð viðbragðs.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing