Bandaríski leikarinn Ezra Miller var handtekið í borginni Honolulu á Hawaii fyrir óspektir á almannafæri. Sögur herma að Miller hafi verið að áreita gesti bars sem hán heimsótti.
Í erlendum miðlum kemur fram að samkvæmt lögreglunni á Hawaii hafi Ezra æst sig á karíókíbar á Silva Street í Honolulu á sunnudaginn síðastliðinn. Þar öskraði hán og varð pirrað þegar fólk byrjaði að syngja í karíókí. Á einum tímapunkti greip hán míkrófóninn af 23 ára konu sem var að syngja auk þess sem hán stökk á mann sem var í pílukasti.
Fram kemur á vef Hawaii News að það hafi leitt til þess að hán hafi verið handtekið fyrir óspektir og áreitni. Þar kemur einnig fram að eigandi barsins hafi ítrekað beðið Miller að róa sig en að ekkert hafi gengið. Miller var látið laust eftir að hafa greitt 500 Bandaríkjadali (e. 65 þúsund íslenskra króna) í tryggingu.
Miller er heimsfrægur leikari og hefur undanfarin ár leikið lykilhlutverk í kvikmyndum líkt og Justice League, We Need To Talk About Kevin, The Perks of Being a Wallflower, Trainwreck og Fantastic Beasts-myndabálknum. Á næstunni verða frumsýndar stórmyndirnar The Secrets of Dumbledore og The Flash, þar sem Miller fer með burðarrullu í báðum myndum.
Atvik á Prikinu vakti athygli víða
Í apríl 2020 birtist myndband af Miller úr portinu á skemmistaðnum Prikinu, en þar sést hán taka konu hálstaki. Myndbandið gekk hratt manna á milli á samfélagsmiðlum og hefur víða verið deilt um hvort um grín eða alvöru hafi verið um að ræða. Sé þó óumdeilanlegt að Miller sé ekki óvant því að verða til vandræða í skemmtanalífinu – og fleiri stöðum.
Myndbandið fræga af Prikinu má sjá hér að neðan: