Á ráðsfundi Menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur í gær var samþykkt tillaga þess efnis að tólf tónleikastaðir og menningarhús, er sinna lifandi tónlistarflutningi, hljóti styrk úr Úrbótasjóði tónleikastaða í Reykjavík. Greint er frá þessu á albumm.is
Umsóknarfrestur var til 31. maí sl. en alls bárust 14 umsóknir í sjóðinn frá 13 tónleikastöðum og menningarhúsum. Heildarupphæð sem sótt var um nam tæpum 18 milljónum króna. Faghópur skipaður einum fulltrúa sem Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð skipaði og tveimur fulltrúum sem STEF og FÍH skipuðu saman fór yfir umsóknirnar og lagði tillögur um úthlutun fyrir Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð sem var samþykkt.
Staðirnir sem hljóta styrki eru þessir:
- Gaukurinn
- Tónlistarþróunarmiðstöðin (TÞM) úti á Granda ( með tónleikastaðinn Hellinn)
- Gamla bíó
- Mengi
- R6013, sem rekinn er í kjallara húss á Ingólfsstræti
- Stelpur rokka!, sem reka áfengislausan stað með áherslu á tónleikahald fyrir ungmenni
- Húrra
- Prikið
- Skuggabaldur
- Space Odyssey
- Post-húsið á Skeljanesi
- Stereo