Góðgerðarverkefnið Konur eru konum bestar gekk vonum framar í ár og söfnuðust 3,7 milljónir fyrir Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur.
„Þakklæti er mér efst í huga eftir þessa góðu morgunstund sem gaf svo sannarlega jólahlýju í hjartað. Takk til allra sem eruð með okkur í þessu verkefni sem hefur stækkað og þróast svo fallega síðustu þrjú árin og mun halda áfram árlega átaki sínu næstu árin,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir á síðu sinni, Trendnet.is.
Þær stöllur Elísabet, Andrea Magnúsdóttir, Rakel Tómasdóttir, Nanna Kristín Tryggvadóttir og Aldís Pálsdóttir, hafa staðið fyrir þessu verkefni síðan 2017, en ár hvert hanna þær og selja boli þar sem allur góði fer til góðs málefnis.
„Við höfum valið mismunandi félög og málefni til að styrkja við hverju sinni og í ár þurftum við ekki að hugsa okkur tvisvar um áður en við völdum félag til að létta undir. Kraftur hefur átt sérstaklega skrítið ár 2019 og margir félagar fallið frá, allt of ungir að árum, það hlýjar því innst að hjartarótum að geta látið gott af sér leiða og gefið eitthvað í þetta óeigingjarna starf sem þarna er unnið,“ segir Elísabet.
„Þetta gleður bara meira og meira með hverju árinu sem líður og það er á hreinu að klappliðið stækkar hratt og örugglega. Líklega þurfum við stærra húsnæði til að halda þetta í að ári,“ segir Elísabet ánægð í samtali við Vísi.