Auglýsing

Fékk sér flúr af Bjarna Ben í hlutverki Bjarnabófa: Á hlaupum með fullt fangið af peningum

„Bjarni Ben er búinn að vera fyrirferðamesti stjórnmálamaður landsins frá hruni, stanlaust að mynda ríkisstjórnir sem skíta á sig og liðast í sundur, stanslaust að láta grípa sig í bólinu með allt niðrum sig, hann er eins og persóna í grískum harmleik eða skrípó,“ segir rithöfundurinn Bragi Páll sem fékk sér ansi sérstakt flúr í gær. Eins og sést á myndinni sem fylgir þessari frétt – og Nútíminn fékk góðfúslegt leyfi hjá Braga Páli að birta – þá er Bjarni Benediktsson, sitjandi utanríkisráðherra, í hlutverki Bjarnabófa sem flestir þekkja úr Andrési Önd.

„Ef Bjarni væri persóna í teiknimynd þá væri hann eins og Bjarnabófarnir, eða Wile E. Coyote, alltaf að fá metafóríska steðja í hausinn. Svo hefur hann verið ótrúlega óheppinn með að alltaf þegar verið er að selja eignir ríkisins á undirverði eru fjölskyldumeðlimir hans mættir, án hans vitneskju, að sópa til sín. Hann er svo tragískur, algjör Charlie Chaplin týpa, þannig að mér fannst bara eitthvað fyndið við að ganga alla leið og staðfesta þetta á líkama mínum,“ segir Bragi Páll í samtali við Nútímann.

„Hanna Birna segðu af þér“

En þetta er þó ekki fyrsta „pólitíska“ flúr rithöfundsins því að fyrir tíu árum síðan lét hann flúra á sig „Hanna Birna segðu af þér“ en það fékk hann sér á hægra lærið eins og sést á meðfylgjandi mynd. En með þessu áframhaldi…endar þá ekki allur líkami Braga Páls í einhverjum pólitískum flúrum?

„Ég hef ekkert ákveðið, mér finnst mjög mikilvægt að húðflúrin mín séu fyndin, ef ég fæ einhvern vinkil á heilann þar sem ég get komið með yfirlýsingu sem er hlægileg og óþægileg þá er líklegt að ég láti verða af því. Svo er eitthvað fallegt við að húðflúrin hafi takmarkaðan líftíma, það eru tíu ár síðan ég hvatti Hönnu Birnu til að segja af sér, smám saman hættir fólk að muna eftir því máli og þá er ég bara með setningu í boðhætti á fætinum sem færri og færri tengja við,“ segir Bragi Páll og tekur fram að hann sé með annað flúr sem þó sé ekki pólitískt heldur snýr að vini hans sem bjó í Noregi.

„Já. Ég er með annað flúr þar sem ég hvet vin minn Valdimar Albertsson til þess að koma heim, en hann vann í nokkur ár við laxeldi í Noregi. Það eru 8 ár síðan Valdi flutti heim. Kápan á síðustu skáldsögunni minni var unnin þannig að Sigrún Rós tattúveraði á mig titilinn og höfundarnafn, tekin var mynd og það var kápan. Ég vil að flúrin tali inn í nútímann, séu fyndin og hafi mjög takmarkaðan líftíma. Ef það kemur eitthvað til mín þá mun ég örugglega láta verða af því, en svo þarf ég að fara að gera ráð fyrir minnkandi plássi. Ég get til dæmis ekki sett á mig tattú að hvetja Bjarna til afsagnar í hvert skipti sem hann gerir einhver afglöp, ég á bara ekki nógu marga fermetra af húð í svoleiðis framkvæmd. Þá er bara að fá sér eitt verk sem rammar inn allan ferilinn,“ segir Bragi Páll en myndina bæði teiknaði og flúraði Sigrún Rós.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing