Rétt rúmlega fertugur karlmaður fékk símtal í vinnuna á mánudaginn var, sem hann gleymir seint. Símtalið var frá starfsmanni Íslenskrar getspár sem tilkynnti honum að miðinn sem hann hafði keypt í gegnum lottóappið hefði fært honum rúmar 35,4 milljónir. Þetta kemur fram á vef lotto.is
Maðurinn var ekki að trúa fréttunum, var viss um að einhver væri að gera grín og sagði tilfinninguna algjörlega ólýsanlega. „Fyrsta verk verður að greiða niður skuldir, setja útborgun í íbúð og svo verð ég að gera eitthvað virkilega fallegt fyrir mömmu og pabba og líka dóttur mína“ sagði vinningshafinn.
,,Alls voru rúmar 70,9 milljónir í pottinum síðasta laugardag en tveir heppnir miðaeigendur voru með allar tölurnar réttar. Hinn miðinn var seldur hjá Kvikk, Suðurfelli 4 í Reykjavík en sá vinningshafi hefur enn ekki gefið sig fram.” segir í tilkynningunni.
Íslensk getspá hvetur því alla sem keyptu sér miða þar að fara vel yfir þá,
því hver veit nema þú sért orðinn milljónamæringur.