Auglýsing

„Fékk taugaáfall, grét og grét og náði varla andanum“

Förðunarfræðingurinn, hársnyrtirinn og langhlauparinn Rakel María Hjaltadóttir er einstaklega brosmild og lífsglöð manneskja, enda segir hún lífið of stutt fyrir áhyggjur og leiðindi. Lífið hefur þó gengið upp og niður og hún segist hafa fullorðnast fljótt en sé þakklát fyrir reynsluna. Það vakti athygli þegar Rakel María steig fram í fyrrasumar og sagðist standa með þolendum íslensks tónlistarmanns, manns sem Rakel hafði verið í sambandi með í rúm sex ár. Hún segir það hafa verið mikið áfall þegar málið kom upp í fjölmiðlum, sjálfa hafi hana ekki grunað neitt á meðan á sambandi þeirra stóð, en hún hafi verið líkt og á milli steins og sleggju því hún viti að hann sé góður maður þrátt fyrir sína bresti. Kaflaskil urðu hjá Rakel Maríu í febrúar síðastliðnum þegar fiðrildið sem hún segist vera varð að taka ákvörðun um hvort hún ætti að hætta að flögra á milli verkefna eða taka við stórri stöðu hjá 365 miðlum.

Þetta er brot úr lengra viðtali sem aðgengilegt er á vef Birtings.

„Ég ætlaði alltaf að verða leikkona, það var draumurinn þegar ég var yngri,“ segir Rakel María brosandi þegar blaðamaður byrjar viðtalið á að spyrja út í það hvernig áhuginn á förðunarbransanum hafi kviknað. „Ég lærði hárgreiðslu og þegar ég var í náminu fékk ég vinnu í leikhúsinu við að greiða. Ég hafði verið í dansi og tónlist sem krakki og mér hefur alltaf þótt leikhúsið heillandi vettvangur. En þarna sá ég að mér fannst alveg jafnheillandi að starfa á bak við tjöldin eins og á sviðinu sjálfu og ég hef verið svo heppin að fá tækifæri til að starfa heilmikið í bæði leikhús- og kvikmyndaverkefnum. Ég bætti því við mig förðunarnámi og seinna fór ég til London og lærði kvikmyndaförðun. Sem krakki var ég í kór og lærði söng. Ég var öll í þessu skapandi, var alltaf að teikna og mála sem barn en amma mín er mikil listakona. Ég átti alveg pínu erfitt í barnaskóla því skapandi greinar höfðuðu meira til mín en þetta hefðbundna bóknám. Það er svolítið merkilegt hvað er reynt að setja okkur öll í sömu boxin þótt við fáum öll úthlutað í vöggugjöf einhverjum x-mörgum boxum.“

Skilnaður breytti mörgu og hún fullorðnaðist fljótt

Rakel María er fædd og uppalin á höfuðborgarsvæðinu, í Garðabæ. Sextán ára flutti hún að heiman og fór á heimavist á Akureyri til að læra hárgreiðslu fyrir norðan. Hvers vegna skyldi Akureyri hafa orðið fyrir valinu? „Pabbi og mamma skildu þegar ég var þrettán ára og ég skiptist á að vera hjá þeim aðra hvora viku. Fram að því hafði lífið verið mjög gott og ég á bara góðar minningar frá uppvaxtarárunum mínum. Við skilnaðinn breyttist hins vegar margt, eðlilega, en við getum sagt að hlutirnir hafi farið versnandi eftir hann. Ég var auðvitað á viðkvæmum aldri og fór í dálitla uppreisn; litaði hárið á mér svart og byrjaði að reykja og drekka. Ég segi stundum að ég hafi tekið út djammtímabilið áður en hinir byrjuðu á því,“ segir hún og hlær létt.

„Sumarið fyrir menntaskóla fékk pabbi vinnu á Eskifirði og ég flutti með honum austur yfir sumarið. Þar eignaðist ég kærasta og kynntist fullt af krökkum og komst út úr aðstæðum og erfiðleikum sem voru heima í Garðabænum. Krakkarnir fyrir austan voru svo flestir á leið í menntaskóla á Akureyri og þar sem mér fannst ekki góð tilhugsun að flytja aftur heim ákvað ég að fara bara norður. Ég fór því í heimavist á Akureyri og byrjaði að læra hárgreiðslu í Verkmenntaskólanum, VMA. Ég hef alltaf verið rosalega sjálfstæð en það má segja að ég hafi líka fullorðnast fljótt. Ég er samt ofboðslega þakklát fyrir alla reynsluna og held að það sé engin spurning að hún hafi gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.“

„Fékk taugaáfall, grét og grét og náði varla andanum“

Um rúmlega sex ára skeið var Rakel María í sambandi með þekktum íslenskum tónlistarmanni sem fyrir ekki svo löngu síðan var sakaður um að hafa misnotað stöðu sína gagnvart ungum stúlkum. Rakel segir það hafa verið gríðarlegt áfall þegar þau mál rötuðu í fjölmiðla. „Í fyrrasumar, um það bil ári eftir að við hættum saman, vaknaði ég á sunnudagsmorgni og leit á símann minn og þá voru þessar fréttir um hann bara alls staðar. Það var eins og einhver hefði kýlt mig í magann. Ég fékk taugaáfall, grét og grét og náði varla andanum … Þetta var gjörsamlega hræðilegt. Auðvitað hafði alls konar gengið á í okkar sambandi og það var stormasamt á tímabili en ég hafði borið fullt traust til hans og þess vegna var auðvitað erfitt og sárt að heyra af óheiðarleika sem átti sér stað í sambandinu. Við áttum margar góðar stundir saman en vorum samt mikið hvort í sínu lagi því við vorum svakalega ólík og lifðum dálítið hvort okkar lífi; hann að gigga og djamma og ég að hlaupa eða vinna í mínu. Við byrjuðum saman þegar ég var tvítug og hann 27 ára og mér þykir alltaf vænt um hann, því við áttum eitthvað sérstakt. Þrátt fyrir þá bresti sem hann hefur þá er hann góður maður.“

Hefurðu leitað þér hjálpar til að vinna úr málunum?

„Nei, ég hef ekki leitað mér neinnar hjálpar en ég hef fundið ótrúlega þerapíu í hlaupunum og útivistinni. Ég finn mikla ró og hreinlega einhvers konar heilun í hreyfingunni. Ef ég hef verið að ganga í gegnum einhverja erfiðleika hef ég bara farið út í náttúruna. Þar næ ég að fara í gegnum allar þessar hugsanir og komast að einhverri niðurstöðu um það hvernig ég ætla að komast frá þessu. Ég hlusta líka mikið á hlaðvörp og þá hlusta ég mikið á fólk sem mér finnst hafa flott viðhorf til lífsins. Svo er ég reyndar svo heppin að eldri systir mín er fjölskyldufræðingur og handleiðari og ég hef alltaf getað leitað til hennar. Hún er dásamleg manneskja og hefur veitt mér alla þá sáluhjálp sem ég hef þurft.“

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga

 

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Mynd: Hallur Karlsson

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing