Lagasmiðurinn og plötusnúðurinn DJ Khaled hefur heldur betur fengið á sig heilan her af nettröllum eftir uppátæki hans á Wine and Food-hátíðinni í Miami sem var haldin síðustu helgi. Khaled birti myndskeið á Instagram-reikningi sínum þar sem hann sést óska eftir aðstoð við að komast upp á svið þar sem hann vilji ekki skíta út nýju Jordan strigaskóna sína.
Plötusnúðurinn þurfti ekki að bíða lengi eftir hjálp því tveir fílefldir lífverðir báru hann bókstaflega upp á svið eins og lítið barn. Hægt er að sjá myndskeiðið hér fyrir neðan.
„Ég ber enga virðingu fyrir þér. Það er fáránlegt að fullorðinn maður hegði sér svona. Hann talar rosalega mikið um guð en hagar sér svo svona út af skópari. Fáránlegt!“
Þetta átti eflaust allt saman að vera fyndið og bjóst plötusnúðurinn við því að veraldarvefurinn myndi hlæja með honum en í stað þess hefur aðallega verið hlegið að honum. Þá eru nokkrir sem hlógu bara ekki neitt en helltu þess í stað úr reiðiskálum sínum yfir hinn 48 ára gamla plötusnúð og sögðu honum að drulla sér niður úr fílabeinsturninum sínum.
Slæm útreið á samfélagsmiðlum
„Þetta er það heimskulegasta sem ég hef séð! Drullaðu þér af þínum háa hesti,“ skrifaði annar á Instagram áður en fjörið færðist yfir á samfélagsmiðilinn X.
„Allur þessi peningur og hann hefur áhyggjur af einhverjum strigaskóm? Getur hann ekki keypt sér annað par?“ skrifaði einn á meðan annar sá fyrir sér plötusnúðinn sem konung á miðöldum…þó ekki á jákvæðan hátt.
„Khaled er sá sem ég sé fyrir mér þegar ég hugsa um lata og gráðuga konunga sem voru uppi á miðöldum lol.“
Hannaði verðmætt skópar með Air Jordan
Afskaplega fáir taka upp hanskann fyrir Khaled en þó einhverjir. Þeir sem gerðu það bentu á þá staðreynd að þarna hafi plötusnúðurinn verið klæddur í sjaldgæfa hönnun af Jordan-skóm sem hafa ekki enn sést í verslunum – um er að ræða Black Solar J Balvin x Air Jordan Retro 3 „Rio“ strigaskó. Sú hönnun er væntanleg í verslanir vestanhafs í lok maí á þessu ári.
Khaled elskar strigaskó – eins og við sjáum á myndskeiðinu – en hann hefur átt í samstarfi við Air Jordan-vörumerkið og hannaði skó sem heita „DJ Khaled x Air Jordan 5 We The Best Purple“ en það skópar er, þrátt fyrir að vera komið í sölu, mjög sjaldgæft. Parið er sagt ganga sölum og kaupum á netinu fyrir mörg hundruð dollara, ef ekki þúsundir dollara.