Viðbragðsaðilar á Suðurlandi voru kallaðir út um klukkan 15 í dag vegna erlends ferðamanns sem hafði slasast í miklum öldugangi í Reynisfjöru. Þetta kom fram á vef Vísis.
Maðurinn náði að krafla sig tilbaka eftir að hafa lent í öldu og kom þannig í veg fyrir að sjórinn tæki hann út, að sögn Sigurðar Sigurbjörnssonar, varðstjóra hjá lögreglunni í Vík í Mýrdal. Sigurður sagði manninn hafa slasast á öxl og hann hafi verið fluttur til skoðunar, sennilega í Reykjavík, en Sigurður sagðist ekki hafa upplýsingar um hversu alvarlegir áverkarnir voru.
Eftir útkallið tók Sigurður upp símann og tók myndband af ferðamönnum sem staddir voru í hellinum í fjörunni þegar öldugangurinn var sem verstur. Lentu þeir í hálfgerðri sjálfheldu en náðu að hlaupa í burtu í tæka tíð.
Hér fyrir neðan má sjá myndband Sigurðar.