Floti flugfélagsins Play mun í byrjun telja tvær flugvélar. Þær munu fljúga til Alicante, Berlínar, Kaupmannahafnar, London, Parísar og Tenerife.
Í maí á næsta ári er svo stefnt að að fjölga vélum félagsins í sex. Ári síðar eiga þær að vera orðnar átta og frá maí mánuði 2022 tíu talsins. Áfangastöðum mun fjölga og og flug hefjast til Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu félagsins sem Kjarninn hefur undir höndum.
Sala á flugferðum mun hefjast um leið og flugrekstrarleyfi Play verður komið í hús, en það mun gerast þegar félagið hefur lokið hlutafjármögnun sinni, sem felst í því að sækja 1,7 milljarð króna til íslenskra einkafjárfesta. Samkvæmt kynningunni er þegar búið að landa afgreiðslutímum á þeim flugvöllum sem flogið verður til. Þá hefur einnig verið samið um fast verð á eldsneyti fyrsta hálfa ár félagsins í rekstri.
Arnar Már Magnússon er forstjóri Play. Auk hans verða þeir Sveinn Ingi Steinþórsson, sem verður fjármálastjóri, Bogi Guðmundsson, sem mun halda utan um sölu-, markaðs- og lögfræðisviðið, og Þóróddur Ari Þóroddsson, sem verður titlaður meiðeigandi, í stjórnendateymi félagsins. Þeir munu auk þess eiga stóran hlut í félaginu.
Þetta kom fram á vef Kjarnans.