Auglýsing

FLUGT hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2021 hljóta leikstjórinn og handritshöfundurinn Jonas Poher Rasmussen, handritshöfundurinn Amin og framleiðendurnir Monica Hellström, Charlotte de La Gournerie og Signe Byrge Sørensen fyrir dönsku kvikmyndina „Flugt“. 

Þriðjudagskvöldið 2. nóvember hlaut danska kvikmyndin Flugt Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs og fetar þar í fótspor kvikmyndaverka á borð við HROSS Í OSS og KONA FER Í STRÍÐ (Benedikt Erlingsson), FÚSI (Dagur Kári),  ANTICHRIST (Lars Von Trier), PLAY (Ruben Östlund), JAGTEN (Thomas Vinterberg) og LOUDER THAN BOMBS (Jochim Trier).

FLUGT hefur vakið gríðarlega athygli á heimsvísu, er framlag Danmerkur til Óskarsverðlaunanna. Verðlaunin eru veitt kvikmynd í fullri lengd sem hefur listrænt gildi, er framleidd á Norðurlöndunum og gerð til sýningar í kvikmyndahúsum. Verðlaunaféð nemur 300 þúsund dönskum krónum og skiptist jafnt milli handritshöfundar, leikstjóra og framleiðanda enda er kvikmyndagerð sem listgrein afurð náins samspils þessara þriggja þátta. Dómnefndina skipa fulltrúar frá Norðurlöndunum fimm.

Rökstuðningur dómnefndar

„Sjaldgæft er að sjá fagurfræði, stjórnmálum og mannúð fléttað saman á jafn áhrifamikinn og listrænan hátt og í kvikmyndinni Flugt („Flótti“).“

Í þessari teiknuðu heimildamynd segir æskuvinur leikstjórans, Amin, átakamikla sögu sína í fyrsta sinn. Amin er samkynhneigður karlmaður sem kom til Danmerkur sem hælisleitandi á barnsaldri frá Afganistan, og þegar hann hefur frásögnina stendur hann á tímamótum: Hann er að fara að gifta sig.

Flugt vekur áleitnar og hrollvekjandi spurningar um málefni flóttafólks á okkar tímum, en gerir áhorfandanum um leið auðvelt að samsama sig þeirri tilvistarlegu óvissu sem Amin stendur frammi fyrir og sem kvikmyndin styður við með úthugsuðum og stundum kímnum næmleika fyrir smáatriðum og umgjörð.

Sú leið að beita formi teiknimyndarinnar er snilldarleg lausn á tvíþættum vanda, sem annars vegar snýr að nafnleysi aðalpersónunnar og hins vegar skorti á myndefni. Fáguð frásagnaraðferð skilar sér í tilfinningaþrunginni upplifun áhorfandans sem fylgist með hamingjuríkum uppvexti Amins í Afganistan fram að háskalegum flótta til Evrópu. Hann kemst loks til Danmerkur, þar sem hann leitast við að búa sér öruggan samastað í tilverunni.

Kvikmyndin Flugt segir þarfa, mikilvæga og hjartnæma sögu um það  hvernig allar manneskjur eiga rétt á hamingjuríkri æsku og öruggum stað að búa á, óháð uppruna, bakgrunni, aldri eða kynhneigð. Myndin var gerð áður en fjöldi fólks neyddist til að flýja Afganistan fyrir skömmu vegna átaka og hafa þeir atburðir aðeins aukið á mikilvægi hennar. Leikstjóranum tekst þrátt fyrir allt að forðast alla sjálfsvorkunn eða óþarfa tilfinningasemi í frásögninni.

Myndin vann verðlaunin „Grand Jury Prize“ í flokknum „World Cinema Documentary“ á Sundance-kvikmyndahátíðinni og vann verðlaun sem besta myndin í fullri lengd á alþjóðlegu teiknimyndahátíðinni í Annecy. Henni er spáð mikilli velgengni um allan heim á komandi ári. Þá velgengni teljum við í dómefnd kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs að myndin verðskuldi fyllilega. Við erum því á einu máli um það að Flugt skuli hljóta kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2021.“

Titill á frummáli: Flugt

Leikstjóri: Jonas Poher Rasmussen

Handritshöfundur: Jonas Poher Rasmussen og Amin

Framleiðendur: Monica Hellström, Charlotte de La Gournerie, Signe Byrge Sørensen

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing