Landspítalinn og heilsugæslan hafa gefið út leiðbeiningar fyrir almenning og ferðamenn vegna kórónaveirunnar sem breiðir nú hratt úr sér.
„Fólk sem hefur einkenni sjúkdómsins á ekki að koma á heilsugæsluna eða bráðamóttöku beint heldur hringja og fá ráðleggingar. Helstu einkenni eru hiti, hósti, beinverkir og öndunarerfiðleikar,“ segir í frétt á heimasíðu heilsugæslunnar. Þá er fólki ráðlagt að huga vel að handþvotti, með handþvotti og sápu.
Þá hefur Landspítalinn einnig gefið út leiðbeiningar um hvernig best sé að forðast smit.
„Kórónaveiran Novel (2019-nCoV) hagar sér sumpartinn eins og inflúensa, einkennin eru svipuð og smitleiðir eru áþekkar. Handhreinsun, hreinlæti kringum öndunarvegi og örugg meðhöndlun fæðu eru lykilatriði í þessum efnum,“ segir í færslu á Facebook-síðu Landspítalans.
Leiðbeiningarnar eru eftirfarandi:
- Hreinsið hendur oft og reglulega og notið heitt vatn og sápu ásamt handspritti, ef kostur er.
- Hóstið og hnerrið í kreppta olnboga eða pappír í lófa (handþurrkur eða klósettpappír) og hendið pappírnum strax að notkun lokinni.
- Munið að snertismit berst auðveldlega um sameiginlega snertifleti á almannafæri, til dæmis greiðsluposa, handföng, handrið, hurðarhúna, lyftuhnappa og snertiskjái.
- Reynið að komast hjá því að snerta eigin augu, nef og munn með óhreinum fingrum þar sem snertismit berst auðveldlega gegnum slímhúð.
- Forðist náið samneyti við fólk með hita eða hósta og augljós flensueinkenni.
- Ef þið eruð með hita, hósta og örðugleika við öndun leitið þá læknishjálpar þegar í stað og hafið meðferðis ferðasögu ykkar.
- Munið að hringja á viðkomandi heilbrigðisstofnun eða í símanúmerið 1700 (Ísland) áður en þið mætið á svæðið svo hægt sé að gera ráðstafanir til að forðast smit.
- Forðist alla óvarða snertingu við villt dýr og húsdýr og yfirborð á mörkuðum á þeim landsvæðum sem eru núna að fást við kórónaveiruna Novel. Þetta á einkum við Kína í augnablikinu (30. janúar) þar sem Novel hefur náð mestri útbreiðslu.
- Á ferðalögum erlendis ættu Íslendingar að forðast hráar eða lítið eldaðar dýraafurðir. Einkum þarf að gæta varúðar kringum hrátt kjöt, mjólk og innyfli dýra. Mikilvægt er að gæta ítrustu varúðar við eldamennsku. Þetta á sömuleiðis aðallega við Kína.