Gunnar Nelson tapaði fyrir Demian Maia á bardagakvöldi UFC í Las Vegas í gær. Haraldur Nelson, pabbi Gunnars, segir orð ekki geta lýst hverus stoltur hann er af syni sínum.
Sjá einnig: Meistarinn um bardaga Gunnars: „Þetta var ekki hinn sanni Gunnar Nelson“
„Jæja, kvöldið í gær var athyglisvert í meira lagi,“ segir Haraldur í færslu á Facebook.
Orð fá ekki lýst því hversu stoltur ég er af Gunnari. Að mæta í búrið á stærsta bardagakvöldi sem haldið hefur verið gegn goðsögninni Demian Maia, finna að dagsformið er ekki í lagi, ná ekki að beita sér fyllilega, en halda alltaf áfram og gefast aldrei upp, er eitthvað sem fáir leika eftir.
Haraldur segir að hann vildi að fólk hefði getað orðið vitni að samræðum hans við Demian og hans lið eftir bardagann og hvernig þeir Gunnar töluðu saman.
„Ég hugsa að margir hefðu geta lært mikið af þeirra tali og fasi. Það eru sannarlega forréttindi að fá að vera í kringum svona einstaklinga,“ segir hann.
„Hvað þá að eiga annan þeirra að syni. Nú er það bara áfram veginn eins og alltaf. Gunnar ég elska þig meira en orð fá lýst og er óendanlega stoltur af þér.“