Nú þegar þetta EM-ævintýrið er úti er kominn tími á að finna aðrar leiðir fyrir fjölskylduna að verja tíma saman. Sumarið líður alltof fljótt og því um að gera að halda vel á spöðunum til að ná að hlaða batteríin fyrir veturinn. Nú gildir að halda sig sem mest úti við, njóta íslenskrar náttúru, bæði í sól og rigningu.
Hér eru fjölbreyttar hugmyndir fyrir fjölskyldur sem langar að bralla eitthvað saman.
#1. Pikknikk
Boðaðu vini og fjölskyldu saman og haltu skyndi-lautarferð þar sem grasið grær. Allur matur bragðast betur úti!
#2. Læk á læk
Sullum í læk út í sveit. Finndu hentuga lækjarsprænu (fer eftir aldri) og leyfðu krökkunum að sulla, vaða, byggja stíflur, detta á rassinn og vaða upp-fyrir. Það er sumar, föt þorna.
#3. Ef rignir …
Ef það rignir er æðislegt að púsla. Ef þið eigið ekki púsl þá kannið stöðuna á bókasöfnunum, þau eiga mörg hver púsl og spil.
#4. Blómakransrómans
Búið til blómakrans úr sóleyjum og fíflum. Á börn, fullorðna, dúkkur og bangsa. Allir geta á sig blómum bætt.
#5. Bærinn sem margir bruna í gegnum
Hvernig væri að heimsækja á Bjössaróló í Borgarnesi? Svæðið þar í kring er hreint ævintýralega skemmtilegt og fjölskylduvænt.
#6. Finnið ykkur í fjöru
Farið í fjöruferð, með skóflu og krukku undir gersemar eða lífverur sem þarf að skoða betur.
#7. Bleyta til að þreyta mannskapinn
Prófið nýja sundlaug, einhverja sem aldrei hefur verið farið í áður. Sjá hugmyndir hér.
#8. Á álfaslóðum
Heimsækið Hellisgerði í Hafnarfirði. Þar er tilvalið að fara í feluleik (passa bara að unga fólkið villist ekki of langt eða verði brottnumið af álfum). Svæði sem er frábært fyrir ímyndunaraflið.
#9. Á annars konar rúnti
Óvissuferð með Strætó. Börnum finnst merkilega skemmtilegt að ferðast með strætó. Bjóðið þeim í óvissuferð og stigið upp í næsta vagn. Þið endið á forvitnilegum stað, það er pottþétt.
#10. Eldið annars staðar en heima
Grillið á kolum. Grillaðstöðu fyrir kolagrill má finna víða, t.d. á Klambratúni og í Heiðmörk. Þangað mætti t.d. stefna fólki í eftirréttinn; grillaða banana, rababara eða sykurpúða. Og taka stórfiskaleika á eftir.
#11. Sunnudagsmúsík!
Norræna húsið heldur pikknikk-tónleikaröð alla sunnudaga í sumar, frá 26. júní til 14. ágúst. Allar nánari upplýsingar má finna hér.
#12. Hugið að sögunni
Heimsækið söfnin með hinum túristunum. Börnin velja eitt, foreldrarnir annað. Svo má má ræða hvort er skemmtilegra og fróðlegra.
#13. Er færi á fiski?
Rennið fyrir fisk, á næstu bryggju eða í næsta polli, vatni eða ósi (gefið að slíkt sé með leyfi landeigenda eða þar-til-bærra og öryggis sé gætt). Það er ekki aðalatriðið að veiða, sumri fíla bara stemmninguna svo vel.
#14. Útilestur
Allir út að lesa. Finnið ykkur notalegan stað í mosabing eða út undir vegg með nóg af bókum og kakó/kaffi á brúsa, nú eða vatn ef það er gríðarlega heitt og notalegt.
#15. Barnadrama …
Eltið uppi sýningu með Leikhópnum Lottu sem ferðast um landið yfir sumartímann. Á hverju ári setja þau upp nýtt verk og í ár heitir leikritið Litaland. Hér má sjá allar nánari upplýsingar. Svo er Brúðubíllinn alltaf klassískur fyrir þau yngstu.
#16. Smellið af
Ljósmyndamaraþon fjölskyldunnar. Eitt þema, allir sendir út (eða inn) að mynda og svo er haldin sýning og rætt um bestu myndirnar og þær skemmtilegustu.
#17. Tröllin í fjöllunum
Kíkið á tröllin í Fossatúni í nágrenni Reykholts og skríðið oní pottinn hjá þeim ef þið þorið.
#18. Fjársjóðsleit
Skoraðu á krakkana í fjársjóðsleit, og láttu þau leita að munum, hlutum eða dýrum í nágrenninu. Svo má náttúrulega fela bókstaflegan fjársjóð á góðum stað. Eins drasl er annars gersemi.
#19. Boltaleikir
Pógó! Munið þið eftir einfalda boltaleiknum Pógó sem sumir kalla Reit. Súper einfaldur leikur þar sem allir geta verið með – það eina sem þarf er bolti og lítill völlur. Sjá reglurnar og fleiri leiki hér.
#20. Litríkir pinnar
Hvernig væri að búa til litríka og fallega íspinna til að gæða sér á? Möguleikarnir eru endalausir.
#21. Á toppinn
Klífið saman fjall – brattinn og lengdin fer eftir aldri, aðstæðum og veðri. En það jafnast ekkert á við að komast saman á toppinn.
#22. Í berjamó
Í lok sumars er nauðsynlegt að skella sér í berjamó. Það lítur út fyrir frábært berjahaust!
#23. Flóra Íslands
Farið út með bók um íslensk blóm og rannsaka íslenska náttúru aðeins. Hvað heita blómin í kringum okkur? Svo má jafnvel safna þeim, þurrka og nota í föndur.
#24. Tombólu-stuð
Þó tombólukrakkar fyrir utan verslanir fari misvel í fullorðna þá læra börnin margt gott og gagnlegt af því að skipuleggja slíkar uppákomur. Og svo er um að gera að gefa ágóðan í gott málefni.
Við erum líka á Facebook!
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.