Auglýsing

Hvernig hvet ég börnin mín til að standa sig vel í skóla? — sex góð ráð fyrir foreldra

Við leituðum til skólafólks og foreldra eftir leiðbeiningum um hvernig við getum stuðlað að vellíðan og góðum árangri barna okkar í námi. Þetta eru engin geimvísindi en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Hér eru nokkur góð ráð fyrir foreldra barna á grunnskólaaldri.

 

1. Virðing fyrir  verkefnum þeirra

Menntun barnanna er eitt mikilvægasta langhlaupið í uppeldinu sem við berum ábyrgð á sem foreldrar. Skólinn er vinnustaður barnanna og þó þau séu „bara“ að lesa um Sísí og Lóló og blanda saman bláum og gulum lit þá verðum við að virða þau verkefni sem þau sinna hverju sinni. Og þetta byrjar strax í fyrsta bekk, þau þurfa að finna áhuga okkar og metnað fyrir þeirra hönd frá fyrsta degi. Svo þó þú þurfir stundum að feika áhugann – þá er það fyllilega þess virði. Þetta snýst um framtíðina þeirra og þar með þína eigin.

2. Skólaskylda tryggir ekki nám

Þó barn sé í skóla þá er ekki tryggt að það sé „í námi“. Það er í eðli okkar að vilja leggja sem minnst á okkur. Þau geta verið löt alveg eins og við. Hjálpaðu þeim bara að vera ekki löt, það borgar sig einfaldlega ekki að gefa afslátt á náminu. Taktu það alvarlega ef barnið missir úr skóla eða er að heltast úr lestinni og reyndu eftir bestu getu að halda því við efnið. Bókstaflega.

3. Viðhorfið skiptir öllu

Skilaboðin sem þú vilt síst senda eru „mér er sama“ og „þetta reddast“. Það er ekki í eðli náms að reddast. Sorrý. Það bara gerir það ekki. Þetta er eins og hollt mataræði og regluleg hreyfing. Það þarf að sinna þessu. Tökum lestrarnámið sem dæmi. Ef barnið þitt kemst upp með að lesa ekki heima eða æfa sig þegar það er í 2. bekk eru engar líkur á því að það muni snúa við blaðinu og fara að bæta sig í lestri í 5. bekk.

Metnaður er smitandi en það er afskipta- og metnaðarleysi líka.

4. Jákvæð samskipti

Ekki hika við að hafa samband við skólann  og ræktaðu sambandið þitt við kennarana. Það getur reynst svo geysilega dýrmætt að eiga auðvelda samskiptaleið. Þið deilið sama markmiði – að barnið þitt hljóti góða menntun og komist út í lífið sem sterkur og fær einstaklingur. Taktu eftir bestu getu þátt í skólastarfinu. Allir skólar fagna foreldraþátttöku þó þeir sýni það ekki skýrt. Og sama hvað gengur á – reyndu að tala alltaf jákvætt um skólann við barnið. Ekki láta þau heyra af ósætti, vantrú eða veseni sem tengist skólanum, það getur litað þeirra viðhorf um aldur og ævi. Við stýrum ekki skilningi barnanna okkar og ef það er ekki þeirra að leysa vandann þá er óþarfi að blanda þeim í (vanda)málið.

5. Áhugi en ekki eftirlit, ábyrgðin er þeirra

Ef barnið venst því að foreldrar spyrji um námið og skólastarfið er líklega að það láti vita ef eitthvað amar að. Og það er mun heppilegra að barnið beri sjálft ábyrgð á sínu námi og foreldrar séu frekar „upplýstar klappstýrur” heldur en verkstjórar eða eftirlitsaðilar. Börn kunna að meta traust alveg eins og við.

6. „Bara fínt“

Hin klassíska spurning: „Hvernig var í skólanum í dag?“ er ekki vænleg til árangurs. Vertu nákvæmari. Spyrðu út í viðfangsefni í ákveðnum fögum eða félagslífið. Spyrðu einfaldlega eins og þér sé ekki sama og finndu uppá nýjum spurningum, þú vilt ekki alltaf fá sama svarið því þá fyrst veistu að nú þarftu í alvörunni að beita þér.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing