Kæru foreldrar
Þið eruð æði. Það er bæði yndislegt og gaman að vera í kringum börnin ykkar en stundum erfitt samt. Þið þekkið börnin ykkar náttúrlega best en við kynnumst þeim líka mjög vel og nú þegar skólastarfið er að fara aftur af stað er ekki úr vegi að árétta nokkur atriði sem okkur kennurum finnast mikilvæg.
#1. Við erum öll í sama liði
Liðinu sem vill að börn okkar allra vaxi og dafni svo þau verði hamingjusamir og hæfileikaríkir einstaklingar sem skapi okkur gott samfélag til framtíðar. Við viljum taka þátt í að deila stolti ykkar og vonum. Við getum hjálpað til við að láta hvers kyns drauma rætast.
#2. Við hugsum oft til ykkar
Þegar börnin ykkar brillera í tímum, segja t.d. eitthvað ótrúlega gáfulegt og sniðugt, eða standa sig brjálæðislega vel, þá hugsum við til ykkar. Hvað það hefði verið gaman að þið hefðuð upplifað þetta með okkur. Að því leyti eru forréttindi að fá að vera kennari barnanna ykkar. Sumir dagar eru ríkir af slíkum augnablikum – sem betur fer.
#3. Traust skiptir máli
Það er mögulega langt síðan þið voruð sjálf í skóla. Það hefur trúlega margt breyst – en samt ekki allt. Það eru góðar líkur á því að við kennararnir vitum alveg hvað við erum að gera og að börnin ykkar séu í nokkuð góðum höndum. Stundum þarf að gefa sér góðan tíma til þess að ná árangri. Og alls ekki gefast upp þó á móti blási.
#4. Tölum saman
Gott upplýsingaflæði er lykilatriði. Það er vafasamt að draga ályktanir út frá of litlum upplýsingum – þá hljómar allt verr en það iðulega er. Leitið upplýsinga hjá okkur og hikið ekki við að hafa samband. Væri líka frábært að fá oftar viðbrögð við tölvupóstaregninu.
#5. Metnaður er smitandi
Skólinn er líka vinnustaður barnanna. Kærlegast virðið verkefni þeirra og skyldur í náminu. Metnaður ykkar er smitandi og lykillinn að góðum árangri og vellíðan er góð samvinna og reglufesta.
#6. Pössum upp á stemmninguna
Skólastarf tekur breytingum og börnin auðvitað líka. Breytingar gerast stundum hratt, við vitum flest hvaða áhrif einn einstaklingur getur haft til betri eða verri vegar. Við getum öll passað upp á stemningu og andrúmsloft hjá okkar fólki og þannig heildarinnar í leiðinni. Gætum ávallt að orðavali og höfum virðingu að leiðarljósi.
#7. Við eigum okkur líf utan skólans
Ef þið sjáið okkur einhvers staðar utan skólans þá endilega kinkið kolli eða brosið. Við kunnum að meta það. Sum börn verða afar feimin við að hitta kennarana sína á almannafæri en það er ástæðulaust.
#8. Við söknum líka
Kannist þið við rólegheitatilfinninguna þegar börnin ykkar eru ekki heima? Hún varir í smá stund og svo farið þið að sakna þeirra. Við þekkjum þessa tilfinningu rosalega vel og það er tómlegt í skólastofunni eftir kennslu og einnig á starfsdögum. Góð tengsl lifa lengi og maður gleymir seint nemendum sínum. Við söknum líka nemenda sem eru útskrifaðir þó það sé alltaf gaman að fá nýja.
#9. Það besta við starfið
Kennarastarfið er gefandi og maður gleymir fljótt erfiðu hliðum starfsins þegar börnin ykkar blómstra í verkefnum eða ná framförum. Góður kennari getur gert kraftaverk og vonandi kveikt von um bjarta framtíð í brjóstum nemenda.
#10. Spennandi tímar
Finnst ekki flestum gaman að fá eitthvað nýtt og spennandi? Íslenskt samfélag þróast hratt um þessar mundir bæði með tilliti til tækni og menningar. Með fjölmenningu koma nýir siðir og fjölbreyttari menning, vinsamlega gefið nýrri reynslu tækifæri og munið að virða fjölbreytileikann. Jafnframt er gott að halda í gamlar hefðir og munið að hið einfalda er oft best.
Gleðilega rútínu öllsömul. Sjáumst í skólanum.
Við erum líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.