Ísland hafði lengi mikla sérstöðu hvað varðar almennt læsi. Fræðsluskyldu var komið á hér strax á átjándu öld og foreldrar kenndu börnum sínum að lesa. Það var metnaðarmál að þau væru læs og skrifandi þegar sóknarprestur kom í vitjun og prófaði þau. Öll börn þurftu svo að læra kverið svokallaða en það var bók Marteins Lúthers, Fræðin minni. Orðalag þeirrar bókar er fremur tyrfið og ekki víst að öll börn hafi skilið innihaldið þótt þau kynnu orðin. Og það er einmitt það sem er uppi á teningnum í dag. Lesskilningur íslenskra barna minnkar.
Það er sorgleg staðreynd að talið er að ein af hverjum fimm manneskjum hér á Jörð séu ólæsar. Víða stafar þetta af fátækt og að börn hafa ekki aðgang að menntun þess vegna. Á Vesturlöndum fer ólæsi hins vegar vaxandi víða en ástæða þess er að ekki er lögð næg rækt við að bregðast við sértækum námsörðugleikum eða sinna börnum sem þurfa af einhverjum ástæðum meiri stuðning en önnur. Víða eru starfandi samtök sem berjast gegn ólæsi og bjóða fullorðnu fólki aðstoð til að bæta lestrarkunnáttuna. Kannski er þörf á slíku hér á landi.
Birt úr Vikunni, en þann sarp má finna á vef Birtings.
Texti: Steingerður Steinarsdóttir