Auglýsing

Hélt tengdabörnunum í óttablöndnu óöryggi

Þegar við Svavar höfðum verið saman í tæpt hálft ár héldum við jólin fyrir norðan með fjölskyldu hans sem ég var flest að hitta í fyrsta sinn. Ég átti von á ljúfu og skemmtilegu fólki, eins og Svavar er, en það var auðvitað ekki svo gott.

Við Svavar kynntumst þegar tvær deildir í fyrirtækinu þar sem við unnum voru sameinaðar með þeim örlagaríku afleiðingum að við urðum ástfangin. Áður var fyrirtækið starfrækt í tveimur bæjarfélögum en nú alfarið í einu.

Svavar hafði kosið að búa í höfuðborginni en ekki á heimaslóðunum fyrir norðan þótt nóg hefði verið að gera fyrir mann með hans menntun þar. Ein af systrum hans hafði einnig valið að búa í Reykjavík með manninum sínum sem er héðan.

Vaninn hafði mjög lengi verið sá að allir héldu jólin saman á æskuheimili Svavars og nánast bara eigið andlát tekið gilt sem afsökun, eins og hann orðaði það. Þetta yrði þó sennilega í síðasta skiptið því það var varla pláss lengur fyrir börnin sex, makana og öll barnabörnin, foreldrar hans líka teknir að eldast og þreytast. Ekkert systkinanna var tilbúið til að taka yfir veisluhöldin sem voru matur á aðfangadagskvöld og hnallþóruboð á jóladag en þá hjálpuðust allir að við að baka og mæta með eitthvað fínt. Það var greinilega mikilvægt að mæta um þessi jól og auðvitað fór ég með honum. Hann sagði að oft ríktu mikil læti, vissulega fjör og gaman að hitta fólkið sitt en hann væri alveg til í róleg jól með mér til tilbreytingar en það kæmu jól á eftir þessum. Sævar var yngstur sex systkina og sá eini sem átti ekki börn.

„Hún mældi mig út, horfði nánast grimmdarlega á mig og ég hefði sennilega farið í kerfi ef ég ætti ekki svipaða móður sem var fyrir löngu hætt að geta tekið mig á taugum.“

Tengdamamma virtist sannarlega ekki gömul og þreytt þegar ég hitti hana í fyrsta sinn, heldur sat hún eins og virðuleg ættmóðir í hægindastól þegar við Svavar mættum þremur dögum fyrir jól en vegna leiðinlegrar veðurspár mættum við fyrr. Hún mældi mig út, horfði nánast grimmdarlega á mig og ég hefði sennilega farið í kerfi ef ég ætti ekki svipaða móður sem var fyrir löngu hætt að geta tekið mig á taugum. Ég heilsaði henni kurteislega og lét svip hennar ekkert á mig fá, hélt mínu striki. Það var greinilega hið eina rétta því hún reyndi þetta ekki frekar. Ég komst að því seinna að hún hélt flestum tengdabörnunum í eins konar óttablöndnu óöryggi og þau kepptust við að gera henni til hæfis.

Hún talaði stundum svolítið illa um þau við mig, að hún sæi í gegnum fólk, hvaða mann það hefði að geyma og ein vesalings dóttir hennar væri nú ekki vel gift. Það var hitt tengdabarnið sem neitaði að láta hana hræða sig og svaraði henni fullum hálsi, sem ég gerði þó ekki, ég var kurteis við hana en lét hana ekki hræða mig. Ég hef hana grunaða um að gera þetta til að skemmta sér í tilbreytingalausu lífi sínu.

Systkini Svavars voru hvert öðru indælla við mig þessi fyrstu jól og mér líkaði mjög vel þau. Þó var ég ekki viss um að mér líkaði við eina systur hans, hún pirraði mig á einhvern hátt sem ég skildi ekki í fyrstu. Ég reyndi þó eftir bestu getu að loka á þetta, manni gæti ekki líkað illa við svona indæla konu.

Hún var í fínni vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Ég samþykkti vinarbeiðni frá henni á Facebook og sá að hún átti nokkur þúsund vini sem ég skildi þegar ég áttaði mig á því að hún var að búa sér til tengslanet sem auðvitað var gott í starfinu sem hún gegndi þá. Hún deildi stundum „sniðugum“ setningum og sagði sínar skoðanir á þeim, hvatti fólk til að lifa í núinu, einnig að vera besta útgáfan af sjálfu sér. Hún talaði svolítið í klisjum og gaf sig út fyrir að vera sérfræðingur í mannlegri hegðun.

Ef hana hefði grunað að ég þoldi hana illa hefði hún samstundis afgreitt það sem öfund og afbrýðisemi út í fegurð hennar og velgengni, ég áttaði mig á því síðar. Ég reyndi svo mikið að láta mér líka vel við hana, hundskammaði sjálfa mig í huganum fyrir að láta þessa indælu konu pirra mig en það var eitthvað við hana sem ég gat þó ekki fest fingur á sem gerði þetta að verkum. Og ekki var það öfund út í hana.

Ég hef svo sem alltaf haft andstyggð á fólki sem setur sig á háan hest og þykist allt vita betur en aðrir. Og áttaði mig smám saman á því að það var yfirlæti mágkonu minnar og hroki sem hafði truflað mig. Það var þegar hún setti af sér tvær myndir á Facebook; fyrir klippingu og eftir klippingu.

„Þetta virtist angra mágkonu mína því næsta færsla hennar fjallaði um að konur yrðu að gæta sín á öfundsýki og afbrýðisemi út í útlit annarra kvenna.“
Hundrað falleg hrósyrði

Sennilega var ég ein af þeim fyrstu til að hrósa klippingunni því hún var virkilega sæt svona stuttklippt. Sama gerðu eflaust yfir hundrað manns, aðallega konur, en ein þeirra sem hrósaði henni, eldri kona, bætti þó við að sér fyndist hún kvenlegri með sítt hár, hún væri samt voða sæt. Þetta virtist angra mágkonu mína því næsta færsla hennar fjallaði um að konur yrðu að gæta sín á öfundsýki og afbrýðisemi út í útlit annarra kvenna. Hún tók þessa athugasemd sem dæmi en orðaði það mjög blíðlega, það hefði mátt hrósa henni fyrir fínu klippinguna án þess að láta eitthvað annað fylgja. Þetta þótti henni sönnun um að við konur kynnum ekki að samgleðjast hver annarri. Það fauk hreinlega í mig en ég hafði ekki lyst á því að segja nokkuð, heldur tók mér góða hvíld frá henni og faldi færslur hennar. Við Svavar vorum ekki mikið í sambandi við hana og manninn hennar sem var eins gott. Ég veit ekki hvort ég hefði getað stillt mig um að ræða þetta við hana. Hún skrifaði þetta af svo miklu yfirlæti að mér varð flökurt. Mín reynsla af konum er bara góð og þótt ég hafi unnið á mörgum kvennavinnustöðum hef ég aldrei upplifað það sem mágkona mín predikar. Fólk er mismunandi, bæði gott og slæmt og óþolandi að hlusta á þetta. Hversu furðulegt var að fá um 100 falleg og einróma hrós frá konum en saka konur samt um að vera konum verstar?

Ég sit vissulega uppi með þessar tvær konur; tengdamömmu sem hefur bitið í sig að hún sé svo mikill mannþekkjari og nýtur þess hreinlega að gera fólk hrætt við sig. Fólk sýnir henni virðingu ég hef heyrt sagt um hana að hún sé svo sterkur karakter. Þrátt fyrir allt kann ég núorðið ágætlega við hana, fólk verður bara sjálft að ráða því hvort það láti hana hræða sig.

Svo er það dóttirin sem þarf svo mikið að kenna okkur hinum hvernig við eigum að haga okkur í lífi og starfi, hún viti allt svo miklu betur en við hin. Hún pirrar mig ekki jafnmikið og hún gerði fyrst og það er eins og hún finni á sér að hún ætti ekki að tala um suma hluti nálægt mér. Hún reyndi einhvern tíma að tala um konur sem væru svo grimmar hver við aðra og ég mótmælti harðlega og sagði að fólk væri misjafnlega gott, kyn skipti ekki máli. Ég áttaði mig líka á því að hún er yfirlætisfyllri á samfélagsmiðlum en hún er í eigin persónu. Kannski á mér eftir að líka vel við hana einhvern daginn, ég vona það, ég væri fyrir löngu búin að segja upp vináttu við hana ef hún væri vinkona mín, en maður gerir það ekki svo glatt við manneskju í fjölskyldunni. Ég held að enginn þar hafi hugmynd um álit mitt á henni. Ekki einu sinni tengdamamma sem þó segist allt sjá, skilja og vita.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing