Lífsreynslusaga Vikunnar*:
Eitt sumar fyrir nokkrum árum síðan bráðvantaði mig vinnu. Ég var komin í sumarfrí frá háskólanum og hafði misststarfið sem ég hafði haft meðfram náminu, snemma um vorið. Þegar leið á sumarið var þó ljóst að ég þyrfti að fara að finna mér eitthvað að gera og ekki væri verra að geta safnað smá aur. Ég var búin að vera í erfiðum aðstæðum mánuðina á undan, skólinn hafði verið strembinn um vorið og lífið almennt frekar niðurdrepandi. Ég ákvað að skoða atvinnuauglýsingarnar og athuga hvort það væri ekki eitthvað í boði en ég hafði hugsað mér að finna þægilegt starf í göngufæri frá heimili mínu, með sveigjanlegum vinnutíma svo ég gæti nú átt smá sumarfrí áður en skólinn byrjaði aftur um haustið.
En það var ekki mikið í boði og ég heyrði aldrei frá neinum varðandi þau störf sem ég sótti um. Ég var að gefa upp vonina þegar ég sá auglýsingu sem greip athygli mína. Auglýst var eftir starfsfólki á litlum veitingastað sem gæti byrjað strax og unnið yfir sumartímann. Það hljómaði fullkomið fyrir mig þar sem ég hafði mikla reynslu af að þjóna í gegn um árin meðfram námi. Eina vandamálið var að veitingastaðurinn var staðsettur út á landi, og ekki bara í næstu byggð, heldur í um sjö klukkustunda akstursfjarlægð frá bænum. Ég veit ekki hvað kom yfir mig en ég hringdi strax og um klukkutíma síðar var ég búin að ráða mig í vinnu. Kannski var það þörfin á að breyta um umhverfi eða einhver leynd ævintýraþrá sem lét á sér kræla en ég var ánægð með ákvörðunina mína og var mjög spennt að fara út á land til að vinna næstu vikurnar. Ég sagði fjölskyldunni minni frá áformum mínum, kvaddi kærastann minn, sem sat eftir í sárum, og lagði af stað daginn fyrir afmælið mitt. Kærastinn var einstaklega leiður að missa af afmælisdeginum mínum en mér stóð á sama, ég var virkilega tilbúin að breyta um umhverfi, taka nauðsynlega pásu frá lífinu mínu í Reykjavík og gera eitthvað öðruvísi.
Stirðar móttökur og kvíði samstarfsfélaga áberandi
Starfinu fylgdi herbergi í íbúð sem yfirmaðurinn átti og ég deildi íbúðinni með annarri stelpu sem vann á veitingastaðnum með mér. Þegar ég mætti á staðinn eftir langt ferðalag biðu mín æðislegar móttökur. Ég tók þó strax eftir því að starfsfólkið á veitingastaðnum virkaði mjög stressað, utan við sig og feimið. Á þeim tíma hugsaði ég ekki mikið út í þetta því það er alltaf svolítið skrítið að byrja á nýjum vinnustað og ég hugsaði með mér að ég þyrfti bara að venjast þessu nýja umhverfi.
Þegar búið var að kynna mig og sýna mér veitingastaðinn og aðstæður, fékk ég tækifæri til að fara „heim“, taka upp úr töskunum og koma mér fyrir. Samstarfskona mín og nýi meðleigjandinn, sem ég kýs að kalla hér Diljá, tók vel á móti mér og hóf að segja mér frá bænum og lífinu þar. Hún var sjálf úr Reykjavík og, rétt eins og ég, hafði hún komið til að vinna þarna fyrir nokkrum mánuðum þar sem hún vildi breyta um umhverfi og eignast smávegis aur. Diljá var einstaklega ljúf og hjálpsöm en hún var líka mjög stressuð og talaði lágum rómi um starfið og nýja vinnustaðinn minn. Ég tók strax eftir því að Diljá vandaði sig mjög við orðaval sitt og gætti þess hvað hún sagði, og hún var greinilega á varðbergi þar sem hún leit stöðugt út um gluggann líkt og til að athuga hvort einhver væri að koma. Hún sagði mér að það væri ekkert að gerast í þessum litla bæ, allt væri dýrt og ég þyrfti að keyra í nokkra klukkutíma yfir í næsta bæ til að geta verslað almennilega í matinn. „Frábært!“ hugsaði ég því mér fannst bara reglulega gott að vera komin í hálfgert krummaskuð þar sem ég fengi að vera í í friði.
Eina vandamálið var að veitingastaðurinn var staðsettur úti á landi, og ekki bara í næstu byggð, heldur í um sjö klukkustunda akstursfjarlægð frá bænum. Ég veit ekki hvað kom yfir mig en ég hringdi strax og um klukkutíma síðar var ég búin að ráða mig í vinnu.
Starfsfólkið greinilega stressað og kvíðið
Fyrstu dagarnir í vinnunni gengu nokkuð áfallalaust fyrir sig. Það var alltaf nóg að gera og veitingastaðurinn nánast alltaf troðfullur af bæði erlendum og innlendum ferðamönnum. Ég tók samt strax eftir því að enginn heimamaður af staðnum lét sjá sig þarna. Samstarfsfólkið mitt var gott en líkt og áður virkuðu allir mjög stressaðir og ég skynjaði einhvern kvíða í þeim. Það var skrítinn mórall á vinnustaðnum þegar yfir-maðurinn var staddur þar og ljóst að við vorum ekki komin þarna til að eignast vini og blanda geði við aðra. Einn daginn ákváðum við þó öll að hittast heima hjá mér og Diljá eftir vakt, fá okkur bjór og kynnast betur. Þegar yfirmaðurinn okkar frétti af þessu fór þá af stað atburðarás sem gjörbreytti dvöl minni á þessum stað.
Óttuðust að missa vinnuna ef þær myndu segja eitthvað
Yfirmaðurinn tók ekki vel í það þegar hann heyrði að við ætluðum að hittast eftir lokun og kallaði allt starfsfólkið á fund eftir vaktina þar sem okkur var okkur tilkynnt að ef einhver dirfðist að mæta þunnur, þreyttur eða of seint á vakt daginn eftir yrði sá hinn sami rekinn á staðnum. Mér brá við þessa yfirlýsingu en samstarfsfólk mitt kippti sér greinilega lítið upp við hana. Þegar heim var komið og nokkrir bjórar búnir að renna ljúft niður reif Diljá loks þögnina. Hún sagði staðreyndina vera þá að seinustu mánuði hefði hún verið að vinna stanslaust á 14 tíma vöktum alla daga, og samstarfsfólkið okkar tók undir þá frásögn. Hinar stelpurnar sögðu mér sögur af því hversu erfitt þetta sumar hefði verið fyrir þær, hvað þær fengju illa borgað fyrir botnlausa vinnu og þar að auki væru þær ekki með nein réttindi, enda engin þeirra búin að skrifa undir ráðningarsamning. Þær voru augljóslega mjög smeykar við yfirmanninn og forðuðust að styggja hann til að það myndi ekki bitna á þeim í vinnunni.
Þær sögðust líka óttast það að missa einfaldlega vinnuna. Þetta kom mér allt á óvart, þar sem yfirmaður okkar hafði ekki verið neitt nema almennilegur, ljúfur og hjálpsamur gagnvart mér … að minnsta kosti enn sem komið var. Kvöldið var þó mjög skemmtilegt og ég kynntist samstarfsfólkinu mínu betur en þessar sögur sátu í mér og það að heyra hvernig ástandið á veitingastaðnum var. Mér fannst ég algjörlega blind á það hvernig staðurinn var í raun og veru, en ég hugsaði með mér að ég væri líka bara nýbyrjuð svo kannski ætti ég eftir að upplifa þetta á eigin skinni.
Tók þessu þegjandi og hljóðalaust
Daginn eftir mættum við stelpurnar í vinnuna, ferskar og á réttum tíma, en okkur mætti pirringur og fýla. Alla vaktina lét yfirmaðurinn allt bitna á okkur Diljá; skammaðist í okkur yfir engu og bjó til vandamál sem voru ekki til. Ég tók strax eftir að framkoma yfirmannsins í minn garð hafði breyst og þarna sá ég hvað stelpurnar höfðu talað um kvöldinu áður. Mér leist ekkert á þetta, ég var að fá lítið borgað og var búin að vera að vinna í tólf til fjórtán tíma á sólarhring síðustu þrjár vikurnar, alveg linnulaust. Allar viðvörunar-bjöllur fóru af stað hjá mér og mér leist ekkert á þetta. Nokkrir dagar liðu og hver vakt var verri en sú síðasta. Því nánari sem ég varð samstarfsfólki mínu því meira bitnaði það á okkur í vinnunni. Í hvert skipti sem við reyndum að skipuleggja hitting eftir vakt eða gerðum plön sá yfirmaðurinn til þess að það myndi ekki geta gengið. Til dæmis tók hann sig til einn daginn og breytti vöktunum hennar Diljár, einangraði hana frá okkur og ég sá hana æ sjaldnar, meira að segja þótt við byggjum saman. Ég vorkenndi henni mikið en sá að hún var of meðvirk til þess að standa með sjálfri sér. Hún tók þessu bara þegjandi og hljóðalaust, enda vildi hún ekki missa vinnuna.
Ég þóttist nokkuð viss um að ákvörðun mín að hætta myndi
bitna illilega á samstarfsfólki mínu og ég var með nístandi
samviskubit yfir því. Ég tók samt þessa ákvörðun fyrir sjálfa mig og mín vegna því ég vissi að aðstæðurnar þarna voru hvorki góðar né heilbrigðar.
Aðstæðurnar hvorki góðar né heilbrigðar
Á endanum áttaði ég mig á því að mig langaði ekki að vera í þessum aðstæðum lengur. Einn daginn, í langþráðu vaktafríi, ákvað ég því að pakka saman og fara heim. Ég kvaddi Diljá, í gegnum skilaboð á Facebook þar sem við hittumst aldrei lengur, og lagði af stað heim til Reykjavíkur. Þegar ég var hálfnuð heim hringdi ég í yfirmanninn og sagðist ekki geta haldið áfram, þetta hentaði mér ekki og ég væri með of mikla heimþrá. Þetta var ekki endilega satt en heldur ekki alveg ósatt. Ég sagðist ekki hafa skrifað undir neinn ráðningarsamning og ég hefði þess vegna ákveðið að best væri að fara, enda ekkert skuldbundin þarna, þannig séð. Yfirmaðurinn hótaði mér öllu illu, meðal annars því að halda eftir laununum mínum. Ég þóttist nokkuð viss um að ákvörðun mín að hætta myndi bitna illilega á samstarfsfólki mínu og ég var með nístandi samviskubit yfir því. Ég tók samt þessa ákvörðun fyrir sjálfa mig og mín vegna því ég vissi að aðstæðurnar þarna voru hvorki góðar né heilbrigðar. Ég varð ofboðslega fegin þegar ég fékk greitt fyrir vaktirnar sem ég vann en aðeins nokkrum vikum eftir að ég fór heim gengu allir starfsmennirnir út og eigandinn neyddist til að loka staðnum fyrr þetta sumar. Það fékkst enginn til að vinna þarna og enginn sem þarna bjó hefði látið sér detta í hug að vinna þarna, enda þekktu heimamenn til og vissu hvernig málum var háttað á veitingastaðnum.
Orðspor yfirmannsins mjög slæmt
Við stelpurnar sem höfðum unnið saman á veitingastaðnum héldum sambandi og ég var sérstaklega glöð að halda sambandi við Diljá. Um haustið, þegar við vorum allar komnar aftur til Reykjavíkur, hittumst við og ræddum hvernig ástandið hafði verið. Diljá sagði mér meðal annars að eftir að ég hefði hætt hefði allt farið til fjandans og það hefðu bara engin takmörk verið fyrir leiðindunum sem þær máttu þola af hálfu yfirmannsins. Fjórtán tíma vaktir urðu að sextán tíma vöktum og Diljá sagðist hafa verið hætt að fá vaktafrí. Hún var þó síðust til að ganga út og sagðist einungis loks hafa ákveðið að gera það vegna þess að allir aðrir voru farnir og hún hefði ekki getað hugsað sér að vera ein eftir. Hún hefði því loks tekið ákvörðunina og farið heim.
Í dag erum við Diljá enn í sambandi og hittumst reglulega til þess að tala um þessa lífsreynslu og skiptast á slúðri um bæinn. Staðurinn fór strax á hausinn og hefur lengi verið á sölu en enginn keypt hann enn. Orðsporið sem fer af þessum fyrrverandi yfirmanni okkar var mjög slæmt og hann í raun hálfútskúfaður í þessu litla samfélagi. Diljá segir að áður en ég hafi komið á staðinn hafi margir starfsmenn verið búnir að reyna að vinna þarna en allir gefist upp. Staðurinn var kominn með það slæmt orðspor í veitingageiranum að stéttarfélög vöruðu erlent verkafólk við að skrá sig í vinnu þarna því það myndi ekki fá greitt. Ég entist sem betur fer ekki lengi í starfinu, fékk greitt og kom nokkuð ósködduð út úr þessari reynslu. Ég er þakklát fyrir þá dásamlegu vini sem ég eignaðist á meðan á þessu stutta ævintýri mínu á stóð.