Auglýsing

Þrír gjörólíkir einstaklingar í einum líkama

Sjónvarpsserían Moon Knight kláraði göngu sína í byrjun sumars. Samnefnd ofurhetja úr smiðju Marvel myndasagna var þar í aðalhlutverki, lystilega leikinn af Oscar Isaac. Þættirnir vöktu mikla og verðskuldaða athygli, enda talsvert ólíkari því sem við höfum vanist í Marvel/Disney þáttum eins og WandaVision eða Falcon and the Winter Soldier, myrkari í tón og nokkuð ótengdir restinni af kvikmyndaheimi Marvel.

En hver er hetjan sjálf? Mánariddarinn, eða Marc Spector, er alls ekki á sama vinsældarstigi og samstarfsfólk hans á borð við Járnmanninn, Þór, Ruminn eða Kafteinn Ameríku. Það þarf því ekki að koma á óvart ef þú hefur aldrei heyrt á hann minnst. Við ætlum að skoða karakterinn í myndasögunum og í þáttunum, hvað skilur þá að og hvað þeir eiga sameiginlegt.

Ef þú ert ekki búin/n að horfa á þættina þá er neðri hluti greinarinnar alls ekki fyrir þig.

Þrír í einum

Mánariddarinn hefur oft verið kallaður „Leðurblökumaður Marvel heimsins,“ en karakterarnir eiga margt sameiginlegt. Báðir eru þeir milljónamæringar sem nota auðæfi sín til að berjast gegn glæpum og báðir notast þeir við alls kyns græjur og tól.

Helsti munurinn á þeim er að Bruce Wayne, maðurinn á bak við Blökuna, er bara ein manneskja. Það eru þrír menn á bak við Mánariddarann.

„Aðal“ persónuleikinn er Marc Spector, rabbínasonur sem álpaðist í herinn og varð seinna meir málaliði. Í einu verkefni er hann skotinn til bana af leiðtoga málaliðahópsins eftir að hafa mótmælt því að skjóta saklaust fólk. Marc er endurlífgaður af egypska guðinum Khonshu og gerður að ofurhetjunni Mánariddaranum. Riddarinn á að vernda saklaust fólk í nafni guðsins.

Marc hefur þarna eignast talsvert fjármagn frá málaliðaferlinum. Hann ákveður að gera sér upp nýtt nafn, Steven Grant, en sá er viðskiptajöfur sem fjármagnar bardaga Marc gegn glæpum, hans eigin Bruce Wayne. Þriðji persónuleikinn er leigubílstjórinn Jake Lockley.

Hann skiptir á milli þessara þriggja persóna af ýmsum ástæðum. Jake Lockley hefur það verkefni að afla upplýsinga af götunni. Steven Grant er opinber persónuleiki og Marc Spector er Mánariddarinn.

Upphaflega skipti hann á milli persóna eins og að skipta um föt. Seinna meir var það hins vegar opinberað að Marc er með rofinn persónuleika, þegar hann skiptir á milli Marc, Jake eða Steven, þá er hann raunverulega að skipta um persónuleika og man oft ekki eftir atburðum sem eiga sér stað.

Mánariddarinn hefur oft komið fyrir með öðrum persónum í Marvel heiminum og hefur oftar en einu sinni barist með Hefnendunum. Söguþræðir hans í myndasögunum eru fjölbreyttir, en síðustu ár hafa farið í umfjallanir á baráttu hans við eigin geðheilsu, ásamt því að snúast gegn Khonshu og reyna að fá stjórn á eigin lífi.

*hér fyrir neðan verður talað aðeins um sjónvarpsþættina. Ekki verður spillt fyrir neinu sérstöku, en ef þú ert ekki búin/n að horfa á þættina er kannski betra að sleppa þessum síðasta hluta*

Ný saga í sjónvarpsþáttum

Þegar fregnir bárust af áætlunum Disney að framleiða sjónvarpsþætti um Riddarann kviknaði strax áhugi hjá myndasagnaáhugafólki. Oscar Isaac var valinn til að leika karakterinn, en frægðarstjarna hans hefur risið nokkuð hratt síðustu ár.

Framleiðendur þáttanna kusu að gera alveg nýja sögu um Riddarann og vini hans. Hér er Steven Grant enginn milljónamæringur, heldur rólyndislegur breskur safnabúðarstarfsmaður. Hann á það til að líða út af og vakna á gjörólíkum stöðum. Þá hefur aðalpersónuleikinn Marc Spector tekið við stýrinu og barist gegn glæpum.

Ásamt því að setja mikla áherslu á innri togstreitu Marc þá fengu þættirnir mikið lof fyrir birtingarmynd sína af Egyptalandi og egypskri menningu. Bæði voru þarlendir leikarar fengnir í aðalhlutverk, þá helst May Calamawy sem leikur eiginkonu Marc Spector, Layla El-Faouly.

Mohammed Diab, einn af framleiðendum þáttanna og leiðtogi leikstjórateymisins, er egypskur og sagðist vilja sýna heimaland sitt í öðru ljósi en hefur verið í myndum og þáttum hingað til.

Það verður áhugavert að sjá framtíð Mánariddarans á skjám aðdáenda. Þrátt fyrir að þessi sería hafi verið markaðsett sem „mínísería“ þá eru orðrómar á kreiki um að við fáum fleiri seríur. Það er allavega nóg af karakterum að finna í myndasögunum um Riddarann sem við eigum eftir að sjá. Þar má helst nefna erkióvin Marc, Raoul Bushman, en einnig stuðningskaraktera á borð við rónann Crawley, flugmanninn Frenchie og marga aðra.

Höfundur: Arnór Steinn Ívarsson
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing