Fótboltaland er nýr knattspyrnutengdur skemmtigarður sem mun opna á árinu 2022 á höfuðborgarsvæðinu og er hann fyrsti knattspyrnutengdi skemmtigarðurinn sem opnar á Íslandi.
Í Fótboltalandi verður hægt að sækja afþreyingu fyrir börn og fullorðna þar sem vinsælasta íþrótt heims er í forgrunni. Með stofnun Fótboltalands er ekki bara verið að uppfylla þarfir knattspyrnuáhugafólks heldur einnig mæta vaxandi eftirspurn eftir heilbrigðri afþreyingu.
Í Fótboltalandi verður hægt að velja úr hátt í 20 mismunandi þrautabrautum. Þær munu skiptast í keppnisbrautir og skemmtibrautir. Í keppnisbrautum eru gestir að keppast um að fá sem flest stig úr hverri braut og sigra þannig vini eða fjölskyldu í viðkomandi brautum. Í skemmtibrautum snýst allt um að hafa gaman, þó svo að alltaf sé hægt að stilla upp keppni í þeim brautum líka kjósi gestir svo.
Notast verður við helstu tækninýjungar í Fótboltalandi og má þar nefna RFID armbönd sem halda utan um stigaskor keppanda og knattspyrnutæki sem notuð eru á æfingarsvæðum stærstu knattspyrnuklúbba heims.
Fótboltaland mun eins og áður sagði opna á árinu 2022 og í rúmlega 1000 fm húsnæði. Staðsetning verður tilkynnt síðar ásamt frekari upplýsingum um hvaða brautir og tæki verða í boði í Fótboltalandi.
Eigendur Fótboltalands eru Sena ehf og Jón Þór Eyþórsson hugmyndasmiður Fótboltalands.