Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins hefur veitt fjórum verkefnum styrki að upphæð 26,3 milljónir króna. Við val á verkefnunum fjórum sem hlotið hafa styrki er horft til þess að þau efli menntun í iðn-, verk- og tækninámi, að um sé að ræða nýsköpun sem styrki framþróun í iðnaði og að þau leiði til framleiðniaukningar. Með vali á þessum fjórum verkefnum sem hljóta styrki endurspeglast áherslur Samtaka iðnaðarins. Sjóðurinn var stofnaður árið 2016 í þeim tilgangi að skapa farveg sem styður við og þróar framfaramál tengd iðnaði. Sjóðnum bárust 13 umsóknir.
Verkefnin fjögur sem hljóta styrki úr Framfarasjóði SI eru:
Málmur – samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði og Iðnú hljóta 14 milljóna króna styrk til þess að gefa út námsefni í málmtengdum iðngreinum í framhaldsskólum en kennsluefni er ábótavant í mörgum námskeiðum í þeim iðngreinum. Verkefnið eflir menntun í málmtengdum iðngreinum.
Mannvirki – félag verktaka, Félag ráðgjafarverkfræðinga og Samtök arkitektastofa hljóta styrk að fjárhæð 5 milljónir króna til að þróa samræmda aðferðafræði vegna kostnaðaráætlana í mannvirkjagerð. Verkefnið stuðlar að aukinni framleiðni og hefur breiða skírskotun.
Ásgarður ráðgjöf hlýtur styrk að fjárhæð 6,5 milljónir króna til að þróa leiðbeiningar og viðmið vegna nýsköpunarkennslu grunnskólanemenda með áherslu á að tengja list- og verkgreinar markmiðum grunnskóla undir yfirskriftinni Nýsköpunarskólinn. Félagið starfar nú þegar með um 20 grunnskólum víða um land og mun innleiða þessa aðferðafræði í þeim skólum. Verkefnið snýr að menntun og nýsköpun og hefur breiða skírskotun.
Félag íslenskra gullsmiða hlýtur styrk að fjárhæð 800 þúsund krónur til að skrásetja verkferla á gullsmíðaverkstæði. Verkefnið varðar heila grein og stuðlar að aukinni framleiðni.