Ríkisstjórnin fundaði í morgun í Salthúsinu í Grindavík og ræddi þar innanlandsaðgerðir og fyrirkomulag skólastarfs.
Eftir fundinn var haldinn blaðamannafundur þar sem meðal annars kom fram að núverandi aðgerðir innanlands verða framlengdar um 2 vikur, en það er það sem sóttvarnalæknir lagði til í minnisblaði sínu.
„Það kemur fram í minnisblaðinu að meira en helmingur einstaklinga 70 ára og eldri sem hafa greinst í þessari bylgju sé á fyrstu viku veikinda og því sé ekki komin reynsla á því hvernig gangur veikinda verður hjá þessum hópi. Í því ljósi telur sóttvarnalæknir ekki tímabært að aflétta aðgerðum innanlands,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á fundinum.
Svandís sagði einnig að samkomutakmarkanir munu einnig gilda um skólastarf en grímuskylda verður þó minni. Yngri nemendur, fæddir 2006 og síðar, munu taka grímu niður þegar sest er niður í skólastofu.
Munu þessar takmarkanir taka gildi frá og með laugardeginum 14. ágúst og gilda til 27. ágúst.