Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að frá og með fimmtudeginum 16. júlí munu farþegar frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi hvorki þurfa að fara í skimun né sóttkví við komuna til landsins. Þetta kemur fram á vef mbl
Fram að þessu hafa aðeins farþegar frá Grænlandi og Færeyjum mátt koma án sýnatöku við landamærin. Munu Íslendingar sem koma frá þessum sömu löndum ekki heldur þurfa að fara í sóttkví eða skimun við komuna til landsins.
„Ég hef áður lýst því yfir að æskilegt væri að skima út júlímánuð og taka þá ákvörðun um hvort ekki væri hægt að breyta um áherslur, m.a. með því að hætta að skima einstaklinga frá ákveðnum löndum þar sem smithætta er mjög lítil. Í dag er ljóst að útlit er fyrir að farþegum hingað til lands muni fjölga töluvert og á næstu dögum er líklegt að fjöldinn fari yfir það hámark sem er talið að við getum annað í skimunum, þ.e. 2.000 einstaklingar á dag, og þetta getur valdið ákveðnum vandkvæðum.
Í ljósi þessa og einnig þeirra verðmætu upplýsinga sem við höfum fengið með skimuninni og einnig nýrra áreiðanlegra upplýsinga frá Sóttvarnastofnun Evrópu um útbreiðslu COVID-19 í einstaka löndum, tel ég að það sé réttlætanlegt að flýta breytingum eða nýrri áherslu í skimunum frá því sem við töldum, um lok mánaðarins, og fara í það fyrr og flýta því um eins og eina eða tvær vikur,“ sagði Þórólfur.