Auglýsing

Fréttatilkynning: „Ritstjóri og eigandi Mannlífs vís um brot á fjölmiðlalögum“

Lára Ómarsdóttir, upplýsingafulltrúi Aztiq, hefur sent eftirfarandi tilkynningu á fjölmiðla. Aztiq er í eigu Róbert Wessman.

Ritstjóri og eigandi Mannlífs vís um brot á fjölmiðlalögum.

Róbert Wessman, sem leiðir fjárfestingafélagið Aztiq, hefur sent Fjölmiðlanefnd bréf þar sem hann fer þess á leit við nefndina að hún skoði sérstaklega greiðslur félagsins Skúðáss til Sólartúns á liðnu ári. Áður hafði Róbert kært umfjöllun Mannlífs, sem er í meirihlutaeigu Sólartúns, til Siðanefndar
Blaðamannafélags Íslands.

Þá hefur Róbert tilkynnt ranga skráningu Sólartúns í fyrirtækjaskrá til Skattrannsóknarstjóra en félagið er skráð sem ferðaþjónustufyrirtæki. Jafnframt hefur verið send ábending til Neytendastofu þar sem Mannlíf (Sólartún) kann að hafa gerst brotlegt við lög varðandi kostað efni.

Frá því í janúar árið 2021, eða allt frá því að fyrrum samstarfsfélagi Róberts Wessman, Halldór Kristmannsson, lét af störfum hjá Alvogen, hefur Mannlíf skrifað hátt í 70 greinar um Róbert og félög honum tengd í þeim tilgangi einum að rýra trúverðugleika hans sem og þeirra félaga sem hann stýrir, þar á meðal Aztiq. Þess ber að geta að Mannlíf var áður í eigu Halldórs Kristmannssonar.

Í fyrstu vöknuðu grunsemdir um að Halldór væri að láta Mannlífi í té gögn í þessum tilgangi en í byrjun janúar árs 2022 fékk Róbert staðfestar upplýsingar um að Skrúðás sem er í eigu Halldórs væri að greiða eiganda Sólartúns háar fjárhæðir til að halda úti níðskrifum um Róbert. Hefur þeim verið komið áfram til Fjölmiðlanefndar.

Samkvæmt þessum upplýsingum hefur Sólartún gefið út á liðnu ári reikninga til Skrúðás fyrir textaskrif og aðstoð við textaskrif og nema greiðslur Skrúðáss til Sólartúns tugum milljóna króna í fyrra.

Í samskiptum við ritstjóra Mannlífs undanfarið ár hefur Róbert líkt og samstarfsfólk hans margoft reynt að leiðrétta og koma á framfæri ábendingum til Mannlífs án árangurs. Rangar fréttir hafa ekki verið leiðréttar, ekki hefur verið leitað viðbragða við fréttum og sjaldnast hefur verið haft samband áður en fréttir birtust á vef Mannlífs.

Það er ljóst að Mannlíf hefur misst allan trúverðugleika sem fjölmiðill með því að taka á móti þessum greiðslum. Ítrekað hefur fjölmiðillinn verið vís um að brjóta á siðareglum Blaðamannafélags Íslands og á fjölmiðlalögum. Að auki hefur háttsemin sett umfjöllun annars fjölmiðils sem Sólartún á í annarlegt ljós. Öll skrif þessara miðla um málefni Róberts Wessman ættu því að detta dauð og ómerk niður.

Fyrir hönd Aztiq,
Lára Ómarsdóttir

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing