Auglýsing

Full vinna að viðhalda húðinni og keppa við hrukkurnar

„Það var ekki því um að kenna að við vorum í fjarbúð. Það getur alveg verið þægilegt að vera í fjarbúð, eða 50/50 eins og þetta hefur verið hjá mér, sérstaklega þar sem ég er mjög sjálfstæð og á erfitt með að hafa einhvern hangandi yfir mér alla daga. Eða kannski er það það að ég hef alltaf verið í samböndum sem einkennast af ferðalögum beggja aðila.

Ég veit ekki hvort ég gæti annað, en það er samt aldrei að vita því nú er ég farin að eldast og róast,“ segir ísdrottningin Ásdís Rán Gunnarsdóttir aðspurð um sambandsstöðuna í forsíðuviðtali nýjasta tölublaðs Vikunnar.

 

Ásdís Rán sem er fyrirsæta, þyrluflugmaður og einkaþjálfari stendur á ákveðnum tímamótum þessa dagana þar sem hún er að koma sér fyrir í Kópavogi en hún hefur verið búsett í Búlgaríu um árabil. Næstu tvö árin ætlar Ásdís að vera meira á Íslandi en áður þar sem dóttir hennar ætlar að klára grunnskólann hér. Ásdís er alltaf með marga bolta á lofti og það er nóg
að gera hjá henni. Hún veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en er ákveðin í því að einbeita sér að því sem henni finnst gaman að gera og gefur henni hamingju. Hún sé komin á þann aldur.

Hægt er að lesa viðtalið við Ásdísi Rán og nýjasta tölublað Vikunnar á áskriftarvef Birtíngs.

Sjö daga fríáskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.

Full vinna að keppa við hrukkurnar og viðhalda húðinni

Talið berst að aldrinum. Ásdís segir hlæjandi að það sé ómögulegt annað en finna aðeins fyrir því að hún sé að eldast. „Ég finn alveg aðeins fyrir hormónabreytingum; það er miklu erfiðara að grenna sig og miklu auðveldara að fitna! Það er full vinna að keppa við hrukkurnar og viðhalda húðinni með hinum ýmsu fegrunarmeðferðum. Þyngdaraflið er farið að hafa skrítin áhrif á hina ýmsu líkamsparta en þetta er bara partur af prógramminu sem við allar þurfum að upplifa á einhverjum tímapunkti með hækkandi aldri. Það eru til hinar ýmsu meðferðir til að halda sér ungum lengur. Ég er einmitt sérfræðingur í öllum þeim meðferðum og fræðum og hef sem eins konar fegrunarráðgjafi og auðvitað einkaþjálfari, hjálpað hundruðum kvenna síðustu tugi ára í að finna það sem hentar þeim. Svo margar

vita ekkert hvað þær eiga að gera, hvaða lækna þær eiga að velja, hvaða meðferðir hjálpa þeim og svo framvegis. Ég fæ mjög margar fyrirspurnir og er beðin um að aðstoða konur varðandi þetta, ásamt líka að hjálpa til með mataræði, líkamsrækt. Ég hef líka aðstoðað konur við að kaupa föt og setja saman rétta lúkkið fyrir þær. Þetta hefur einhvern veginn loðað við mig síðan ég man eftir mér og er einhvern veginn bara hluti af mínum frama sem mér finnst gaman. Upp á síðkastið hef ég svo verið að aðstoða fólk með tannlæknaþjónustu í Búlgaríu, lýtaaðgerðir og hárígræðslur í Tyrklandi og Búlgaríu, en þau eru ótrúlega klár með nýjustu tækni í þessum bransa sem er ekki til á Íslandi. Svo er þjónustan töluvert ódýrari þarna úti en heima.“

Aðspurð um það hvernig hún sjái framtíðina fyrir sér, svarar Ásdís að hún ætli að sitja fyrir svo lengi sem hún geti. „Sem betur fer eru líka auglýsingar með eldri konum,“ segir hún og brosir. „Það að sitja fyrir er mín listræna tjáning og erfitt að hætta því. Ég veit ekki hvað kemur til með að gerast þar sem ég er svona nýkomin með annan fótinn til Íslands og veit ekki hvað bíður mín en ég held áfram því sem ég er að gera. Aukalega myndi ég kannski veðja á sjónvarp eða eitthvað tengt heilsubransanum, kannski skelli ég í eitt podcast eins og allir hinir. Það kemur allt í ljós. Ég er bara ákveðin í því að í framtíðinni ætla ég að einbeita mér að því sem mér finnst gaman að gera og gefur mér hamingju. Ég er kominn á þann aldur,“ segir hún og skellir létt upp úr.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing