Auglýsing

Fullkomið líf mitt umturnaðist á augabragði

Framtíðin blasti við mér og kærustunni þangað til við buðum foreldrum hennar og mömmu minni í kaffi einn sunnudaginn. Lífið sem ég hafði hlakkað til að eiga og draumarnir sem ég hafði séð fyrir mér að yrðu að veruleika splundruðust á augabragði.

Ég veit varla hvar skal byrja. Kannski á því að segja aðeins frá æskunni, það er líklega best. Ég ólst upp hjá einstæðri móður og var hennar eina barn. Við bjuggum úti á landi og móðurfólkið mitt bjó í þessum landshluta, sem ég kýs að nefna ekki sökum smæðar landsins okkar. Þrátt fyrir að mamma væri einstæð minnist ég þess ekki að mig hafi nokkurn tíma skort eitt eða neitt. Hvorki veraldlega hluti né þá sem ekki fást keyptir. Mamma var einfaldlega best. Hún naut góðs stuðnings frá foreldrum sínum og amma og afi voru eins og foreldrasett númer tvö fyrir mig. Þau voru einstaklega góð við mig. Segja má að afi hafi gengið mér í föðurstað þar sem ég þekkti föður minn ekki neitt, ég hitti hann aldrei og vissi ekkert um hann. Hafði ekki einu sinni séð myndir af honum. Ég er nú ekkert gamalmenni en þetta var þó á tíma þar sem það þótti dálítið hneykslanlegt að vera með „lausaleiksbarn“ í eftirdragi, eins og ein nágrannakonan sagði einhvern tíma um mömmu en mömmu var alveg sama þótt rætnar slúðurtungur færu af og til á stjá. Hún pældi lítið í því hvað öðrum fannst. Við mamma vorum miklir félagar, ég gat rætt alla hluti við hana og mér fannst mamma aldrei vera feimin að ræða málin við mig. Nema, hún talaði aldrei um pabba minn. Ég lærði snemma að það þýddi ekkert að reyna að draga neitt upp úr henni um það mál allt saman.

Átti að gera hlutina í réttri röð

Lóa, eldri systir hennar mömmu, var ekki sammála þeirri ákvörðun móður minnar að segja mér ekkert um pabba minn svo eftir því sem ég varð eldri fór hún að segja mér aðeins frá honum. Hún kjaftaði svo sem ekkert af sér en sagði mér þó til dæmis frá því hvernig mamma og pabbi kynntust og hvernig stuttu sambandi þeirra var háttað. Mamma hafði farið suður til Reykjavíkur að læra það fag sem hana hafði langað að læra frá því hún var krakki. Hún leigði litla íbúð ásamt vinkonu sinni og Lóu sem voru líka í námi í bænum. Eitt kvöldið ákváðu þær að skella sér á ball og þar hitti mamma pabba. Lóa sagði að hann hefði verið ákaflega myndarlegur og vingjarnlegur, nokkrum árum eldri en mamma, og það hafi flogið neistar á milli hans og mömmu. Mamma varð svo ólétt eftir að þau höfðu verið að hittast um tíma og þá var sambandinu lokið. „Pabbi þinn var örugglega ekki vondur maður,“ sagði Lóa ákveðin þegar hún sagði mér frá sambandsslitunum, „ég held hreinlega að þetta hafi allt verið mömmu hans og pabba að kenna.

Þau voru svo snobbuð og þetta var bara ekkert í boði fyrir elsku strákinn þeirra sem átti að ná svo langt í sínu fagi og gera allt mjög hefðbundið. Þ.e. hann átti að mennta sig, kynnast konu, trúlofa sig, gifta sig og svo mátti fara að huga að barneignum. Þetta varð að gerast í réttri röð, eins fáránlega og það hljómar. Og ég held að hann hafi einfaldlega ekki haft manndóm í sér að standa uppi í hárinu á þeim og fylgja sínu hjarta.“

Mamma kláraði námið sitt, hún hafði ekki átt mikið eftir af því þegar hún varð ólétt, og flutti svo aftur í gamla bæjarfélagið okkar. Lóa sagði að hún hefði verið algjörlega miður sín fyrst eftir sambandsslitin en hún hefði fljótlega ákveðið að láta þetta ekki buga sig heldur gera sig sterkari ef eitthvað var. Öll tengsl við pabba voru slitin og ég veit ekki til þess að þau hafi nokkurn tíma hist eða talað saman eftir að ég fæddist. Það var einfaldlega klippt á allt samband eins og spotta. Amma og afi reyndust henni einstaklega vel og mér leið í raun aldrei eins og ég væri eitthvað öðruvísi þótt ég væri föðurlaus og þekkti ekki föður minn og ég leið aldrei fyrir það í skólanum eða neitt slíkt. Pabbi var alltaf stóra ástin í lífi mömmu, að sögn Lóu, og sú eina. Hún vildi aldrei standa í neinu „karlaveseni“ eins og hún orðaði það, sagðist bara vilja einbeita sér að sjálfri sér og syni sínum ef einhverjar vinkonur hennar eða aðrir skutu á hana fyrir karlmannsleysið.

Mamma var ekki bara falleg og stórglæsileg kona heldur var hún yndisleg manneskja sem öllum líkaði vel við. Hún átti sér marga vonbiðla en enginn þeirra hlaut náð fyrir hennar augum.

Allt fullkomið og hjónasvipur með unga parinu

Að því kom að ég flutti í bæinn og fór í nám í Háskóla Íslands. Mér líkaði vel að búa í bænum, ég kynntist mörgum og eignaðist marga og frábæra vini. Ég fékk góða vinnu hjá stóru fyrirtæki eftir námið og lífið lék við mig. Ég átti nokkrar kærustur en samböndin stóðu ekki svo lengi, ég fann ekki alveg það sem ég leitaði að: Þessari einu sönnu sem ég sá fyrir mér að ég myndi eyða ævinni með. Þ.e.a.s. fyrr en ég hitti Aðalheiði.

Þegar ég sá Aðalheiði í fyrsta sinn vissi ég að hún væri konan sem ég vildi giftast, eignast börn með og elska það sem eftir væri. Hún byrjaði að vinna í fyrirtækinu sem ég vann hjá og ég man enn eftir því þegar ég sá hana fyrst; yfirmaður deildarinnar gekk með hana um húsið og kynnti hana fyrir okkur hinum og þetta var ást við fyrstu sýn. Eftir á sagði hún mér að það hefði verið eins hjá henni. Einhvern veginn var eins og þessu væri ætlað að gerast, við vorum bæði sannfærð um það. Aðalheiður vann í sömu deild og ég og við hittumst nokkrum sinnum í matsalnum og spjölluðum yfir hádegismatnum. Það var svo þegar fyrirtækið hélt árlega jólaskemmtun sem við Aðalheiður áttum fyrsta kossinn og við vorum óaðskiljanleg upp frá því. Vinnufélagarnir samglöddust okkur og fannst við „svo sæt saman“ og töluðu um hjónasvipinn sem væri með okkur. Þetta var í einu og öllu fullkomið. Ég átti litla íbúð og Aðalheiður flutti fljótlega inn, enda langaði okkur að vera saman öllum stundum. Við vorum búin að ræða framtíðina, hvað okkur langaði að eignast mörg börn og allt þetta en það var ekki alveg komið á dagskrá að „verða svo fullorðin“ eins og við sögðum hvort við annað og hlógum svo. Líkt og ég var Aðalheiður einbirni og við töluðum stundum um það að við bættum okkur upp systkinaleysið með mörgum og góðum vinum.

Ég veit að það hljómar fáránlega en ég hitti foreldra Aðalheiðar örsjaldan. Pabbi hennar rak stórt fyrirtæki en mamma hennar var heimavinnandi, ef heimavinnandi skyldi kalla því hún gerði ekki mikið annað en fara í snyrtingu, lagningu og ferðast með eiginmanninum. Starfs síns vegna þurfti hann mikið að ferðast til útlanda og þau voru oft heilu vikurnar að heiman. Ég kunni ekki illa við foreldra Aðalheiðar en ég fann enga tengingu við þau, einhvern veginn fannst mér eins og áhuginn á lífi dótturinnar væri lítill sem enginn og þetta eina skipti sem mér var boðið í mat til þeirra hjóna var lítið talað um annað en viðskipti og eitthvað frægt fólk sem frúin hafði hitt í síðustu utanlandsferð og ég hafði satt að segja lítinn sem engan áhuga á að heyra um. Mamma var, auðvitað, allt öðruvísi, vildi heyra allt um tengdadótturina og gat ekki beðið eftir því að hitta hana. Við mamma töluðum saman í síma næstum daglega og hún gladdist svo mikið fyrir mína hönd að heyra hvað ég var hamingjusamur. Hún var ekki dugleg við að koma suður, hún hafði veikst alvarlega um það leyti sem ég flutti í bæinn og veikindin höfðu mikil áhrif á lífsgæði hennar þótt hún héldi alltaf í gleðina. En svo kom að því að mamma kom suður og við Aðalheiður ákváðum að bjóða mömmu og foreldrum Aðalheiðar í vöfflukaffi einn sunnudaginn. Foreldrar Aðalheiðar tilkynntu strax að þau gætu ekki stoppað nema stutta stund því þau væru að fara utan eldsnemma næsta morgun og mamma hennar átti eftir að gera „óteljandi margt,“ eins og hún orðaði það.

Ekki minnst á bróðurinn.

Þessi fyrrnefndi sunnudagur er eiginlega í móðu og næstu dagar og vikur á eftir líka. Ég get ekki lýst svipnum á mömmu og föður Aðalheiðar þegar þau stóðu andspænis hvort öðru í litlu stofunni heima hjá okkur Aðalheiði og ég ætlaði að fara að kynna þau. Þess gerðist ekki þörf, því þau þekktu hvort annað eftir öll þessi ár frá því þau voru kærustupar áður en ég kom í heiminn. Foreldrar Aðalheiðar ruku á dyr og mamma vildi ekki tala neitt um þetta sem mér fannst ótrúlegt. Það var mikið grátið þennan dag og næstu daga á eftir. Ég óskaði þess oft að þetta væri martröð sem ég myndi vakna af en það var ekki svo gott. Við slitum sambandinu og hættum að tala saman. Það var sorglegt en ég held að flestir geti skilið það. „Pabbi minn“ hafði aldrei samband og ég hafði enga þörf fyrir að reyna að ná sambandi við neinn úr föðurfjölskyldunni minni enda fannst mér nokkuð ljóst að enginn væri heldur áhuginn úr þeirri átt. Ég kvað að flytja til útlanda eftir þetta, fékk góða vinnu og kynntist núverandi konunni minni.

Þegar Aðalheiður dó fyrir nokkrum árum ákvað ég að fara í jarðarförina. Ég var akkúrat staddur heima á Íslandi, af einhverri tilviljun sem kannski var engin tilviljun. Ég læddist inn í kirkjuna rétt áður en jarðarförin byrjaði og sat aftast og læddist svo aftur út áður en kistan var borin út. Það var ekki minnst á neinn hálfbróður í minningarorðunum og ekki heldur í Morgunblaðinu þar sem minningargreinar birtust um hana. Ég ber enga reiði í brjósti en ég viðurkenni að mér finnst illa hafa verið komið fram við móður mína.

Það þýðir samt ekkert að erfa þetta, sem betur fer eru breyttir tímar að mörgu leyti og ég er þakklátur fyrir Íslendingabók.

Birt úr Reynslusögum Vikunnar og aðgengilegt einnig á vef Birtings.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing