Ráðstefnan sem var haldin í Tjarnarsal Ráðhússins í gær var mjög vel sótt. Var þar meðal annars rætt um reynsluna af kynleiðréttingarferli og voru flutt fjölbreytt erindi af Transteymi LSH, Samtökunum 78, Trans Ísland og fleirum.
Tilgangurinn með ráðstefnunni var að fræða heilbrigðisstarfsfólk, kennara og aðra sem koma að málefnum transfólks í starfi sínu og gefa öllum tækifæri til að kynnast málaflokknum.
„Ég var orðinn 25 ára þegar ég fattaði fyrst að það dugði mér kannski ekki lengur að vera butch-lesbía og að ég þyrfti að ganga eitthvað lengra með það. Ég upplifði það rosa sterkt að mig langaði í skegg og dýpri rödd og líkama sem var meira eins og það sem ég hafði í huganum á mér yfir það hvernig ég vildi vera í framtíðinni. Ég hef alltaf upplifað mig sem frekar dæmigerðan transmann sem fittar inn í svona staðalmyndir sem fólk hefur af transfólki“ sagði Alexander Björn Gunnarsson gestur ráðstefnunnar í samtali við Rúv. Hann er þakklátur fyrir þá þjónustu sem hann hefur fengið og segir að sér líði betur bæði líkamlega og andlega.