Auglýsing

Geðheilsa þjóðarinnar hefur versnað í Covid:,,Helvítis Zoom fundir munu verða áfram“

Óttar Guðmundsson, geðlæknir, er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Óttar segist sjá það skýrt að Covid-faraldurinn hafi haft slæm áhrif á geðheilsu fólks.

,,Þeir sem eru viðkvæmir fyrir verða enn verri í Covid-faraldrinum. Þeir sem eru kvíðnir fyrir verða enn kvíðnari, þeir sem eru með áráttu- og þráhyggjuhegðun verða verri af því og þeir sem sjá allt í hamförum verða enn meira hamfaramiðaðir. Það hefur komið upp á að fólk fari í Covid-geðrof og fengið ranghugmyndir varðandi Covid. Þetta hefur klárlega haft áhrif á geðheilsu fólks almennt,“ segir Óttar, sem segir mannsheilann virka þannig að margir séu farnir að eiga erfitt með að ímynda sér heiminn eins og hann var fyrir Covid.

,,Fólk á upp til hópa erfitt með að ímynda sér heiminn eins og hann var. Hann verður líklega aldrei þannig. Þessir helvítis ,,Zoom-fundir“ munu verða áfram. Ég flutti fyrirlestur um Snorra Sturluson á læknadögum í sal sem vanalega er fullur af fólki en var galtómur. Ég var bara að tala við míkrófón og mér fannst ég bara vera hálf geðveikur. Engin stemmning, engin viðbrögð, engin hlátrasköll. Ég man að ég hugsaði að ef þetta væri komið til að vera væri ekki gaman að halda fyrirlestra framar. Því miður held ég að þetta ,,Zoom“ umhverfi sé komið til að vera. Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir það að hitta fólk.“

Óttar breytti öllu í lífi sínu árið 1985, þegar hann hætti að drekka, eftir að hafa verið kominn í ógöngur.

,,Ég kem heim frá Svíþjóð árið 1984 og hætti að drekka sjálfur 1985. Ég var kominn í ógöngur með mína drykkju og alls konar vesen sem fylgdi henni. Það var ekki auðvelt á þeim tíma að vera læknir og viðurkenna að maður ætti við áfengisvandamál að stríða. En ég fór í meðferð og breytti öllu mínu lífi í kjölfarið á því. Fram að því hafði ég aldrei getað fest mig í neinu, var rótlaus og drykkjan hefur örugglega haft mikið með það að gera. En svo byrjaði ég að drekka aftur eftir að hafa verið edrú í 12 ár. Þá hafði ég misst fótanna og það var áfall að horfast í augu við það. Það tók nokkur ár að komast á beinu brautina og núna hef ég verið laus við áfengi í 15 ár.“

Eftir að hafa unnið í sínum áfengisvanda starfaði Óttar sjálfur um árabil við áfengismeðferðir og hefur kynnt sér mjög vel áfengismenningu Íslendinga í gegnum tíðina.

,,Það sem hefur alltaf einkennt áfengismenningu Íslendinga er að drekka mjög mikið þegar menn drekka. Þetta byrjaði strax og áfengi var flutt til landsins og fólk var að kaupa þetta þegar kaupskipin komu. Þannig að það var til mikið áfengi í stuttan tíma og þá var mikið drukkið. Það er endalaust af sögum af bændum sem drukku mikið og urðu úti og annað slíkt. Þannig að áfengismenningin hér var alltaf þannig að fólk varð mjög ölvað þegar áfengi var í boði. Sýslumenn, prestar og bændur urðu oft mjög fullir og fóru að slást og gerðu alls kyns skandala. Svo var reynt að minnka neysluna með því að hafa fáar búðir með fáum tegundum, svo komu bannárin og svo bjórleysið. Þannig að það var alltaf verið að minnka heildarneysluna og við vorum alveg fram undir 1990 með mjög lága heildarneyslu á áfengi miðað við aðrar Evrópuþjóðir. Þess vegna hafa heilsufarsvandamál í gegnum tíðina verið öðruvísi hér en til dæmis í Danmörku. Þar var alltaf meira um lifrarskemmdir, en hér hærri slysatíðni og annað sem tengdist þessum miklu fylleríum.“

Eitt af því sem Óttar leggur mikla áherslu á í allri sinni nálgun á geðlæknisfræði er að fólk finni tilgang.

,,Það verður að vera gaman að lífinu og það er orðið mikið vandamál hvað fólki leiðist rosalega mikið og vantar áskoranir. Það eru komin mikil vandamál með hangs og leiðindi af því að fólk veit ekki hvað það á að gera við sig í frítímanum. Línan á milli þess að vera alvarlega þunglyndur og að leiðast allt í lífinu verður að vera skýr. Oft gerum við ekki nægilega mikinn greinarmun þarna á milli. Til dæmis urðu hlaupin að mínum tilgangi eftir að ég hætti að drekka og það bjargaði mér örugglega að finna mig í þeim og eins að sökkva mér í að lesa og skrifa bækur. Þegar ég byrjaði að drekka aftur missti ég út bæði hlaupin og skrifin og ég tengi þetta beint saman. Það er mjög mikilvægt að fólk finni eitthvað sem gefur því tilgang.“

Óttar segir mjög mikilvægt að fólk mæti kvíða þegar það finnur fyrir honum og láti hann ekki stjórna lífi sínu.

,,Allir eru kvíðnir og kvíði sem er ekki óstjórnlegur er í raun drifkraftur og orka. Ég til dæmis vaknaði þrisvar í nótt með brjóstsviða og það var bara kvíði við að koma hingað og tala við þig. Ég get farið að hugsa um verstu myndir og þá fór ég að hugsa að þú myndir draga mig út í umræðu þannig að ég myndi segja eitthvað sem hneykslar alla þjóðina og ég myndi fá alla fjölmiðla upp á móti mér. Þetta er kvíði en nú er ég kominn hingað og klára af daginn minn þó að ég hafi ekki sofið vel, þannig að ég læt ekki kvíðann stjórna mér. Þar skilur á milli feigs og ófeigs. Ég var mjög kvíðinn í nótt en svo vaknaði ég og kom hingað og það er munurinn. Ef ég hefði hringt í þig og frestað viðtalinu og svo myndi ég gera það með fleiri hluti þá er kvíðinn að byrja að ná stjórninni,“ segir Óttar, sem segist nota bænir og trú þegar kvíðinn reynir að ná stjórninni hjá honum.

,,Ég er mjög trúaður. Það kom með AA-samtökunum og bæninni þar. Pabbi var mikill trúleysingi og ég var það líka. Ég fjarlægðist trúnna mjög mikið. En þegar ég lærði að taka bænina inn í lífið varð ég mjög trúaður og er það. Það er mikill hluti af mínu lífi. Ég fer mjög oft að leiði foreldra minna og bið þar. Ég þakka fyrir allt það sem ég hef, þakka fyrir lífið og allt það sem ég hef fengið.“ 

Óttar hefur í áraraðir starfað við að aðstoða fólk með geðsjúkdóma, fíknivanda og fleira. Eftir hann liggur fjöldi bóka, allt frá Ævisögu Megasar yfir í ,,Hetjur og Hugarvíl“, þar sem Óttar skoðar geðsjúkdóma og persónuleikaraskanir helstu hetjanna úr Íslendingasögunum.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan:

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing