Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu Gerpissvæðisins.
Elstu jarðlög á Austurlandi, um 14 milljón ára gömul, finnast á Gerpissvæðinu og eru þau tengd Barðsneseldstöðinni. Þar eru m.a. litrík líparíthraun sem eru á náttúruminjaskrá, og þykkt gjóskulag með plöntusteingervingum. Gerpissvæðið allt er á náttúruminjaskrá.
Gerpissvæðið er á milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar og hefur hátt verndargildi sem byggir á mikilvægi jarðminja, landslags, menningarsögu og útivistargildi. Innan svæðisins eru einnig stór svæði sem bera einkenni víðerna auk þess sem þar er að finna búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda og fugla.
Gerpissvæðið var tilnefnt á náttúruverndaráætlun 2009-2013 með það að markmiði að vernda búsvæði nokkurra sjaldgæfra æðplöntutegunda og má þar nefna stinnasef, skógelftingu og lyngbúa sem eru á válista Náttúrufræðistofnunnar.
„Þetta er stór stund í sögu náttúruverndar á Íslandi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Gerpissvæðið er stórbrotið svæði, með fugla- og plöntulífi, minjum og merku landslagi sem mikilvægt er að varðveita. Ég óska Austfirðingum og Íslendingum öllum til hamingju með þessa friðlýsingu, en með henni höfum við tekið ákvörðun um að vernda þetta svæði um ókomna tíð.“
Viðstaddir undirskriftina voru auk ráðherra og sveitastjóra, fulltrúar sveitastjórnar og umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar, ásamt starfsmönnum ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins, og fulltrúum landeigenda, en stækkunin hefur verið unnin í góðu samráði fulltrúa þessara aðila.